Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Síða 79
Líkt er farið með þjóð. Hún er ekki höndlanleg í neinu hlutlægu formi,
heldur birtist í ólíkum myndum í hugum manna, eftir því hver afstaða þeirra
er til hennar eða hvernig hún horfir við þeim. Þjóðin sjálf er eins og
ósýnilegur lífskraftur sem bindur menn saman með böndum blóðs og
skyldu. Af þessum krafti vita menn einungis þegar þeir skynja sig sem hluta
af hópi fólks sem lifir saman, skapar og hugsar saman. Sjálfsmyndir manna
og myndir af þjóðinni sem þeir tilheyra eru þá órofa tengdar. Að vera sá, sem
ég er, er að vera sonur eða dóttir þessarar þjóðar. Boðorðið: „Þekktu sjálfan
þig!“ hljóðar þá í nýrri mynd: „Þekktu þjóð þína!“
Þessi nánu tengsl mennsku og þjóðar birtast í þjóðmenningunni sem
skipta má í þrennt: í „siðmenningu“, „verkmenningu“ og „bókmenningu“.
Siðurinn vísar til breytninnar, verkið til framleiðslunnar og bókin til hug-
myndanna sem hún geymir.
Þrískipting þessi á sér rætur í því hvernig mennirnir eru gerðir sem lifandi
verur:
í fýrsta lagi eru þeir félagsverur sem lifa saman í afmörkuðum hópum eins
og flestar tegundir lífvera; líf þeirra er samlíf þar sem líðan einstaklinganna
skiptir höfuðmáli. Siðir og venjur eiga að tryggja viðunandi líðan manna,
öryggi og traust í mannlegum samskiptum.
f öðru lagi eru þeir athafnaverur sem breyta sífellt umhverfl sínu með
framkvæmdum sem tjá þarfir þeirra, óskir eða langanir. Verkin eiga að
tryggja veraldlega hagsæld, völd og virðingu innan hópsins og andspænis
öðrum hópum.
í þriðja lagi eru mennirnir hugsandi verur sem veita öllu í heiminum
eftirtekt, leitast við að skoða og skilja allt sem þar býr og fylgjast með öllu
sem þar á sér stað. Hugsanir manna og skoðanir eiga að tryggja sömu eða
svipaða veruleikasýn meðal þeirra sem byggja heiminn saman.
Menning ber þannig uppi og miðlar sameiginlegum reynsluheimi þar sem
menn lifa, starfa og hugsa á sama veg í grundvallaratriðum, hversu ólíkir sem
þeir geta verið innbyrðis. Þeir eiga sér sameiginlega vitund og sameiginlegan
vilja vegna þess að hugur þeirra er mótaður af og nærist á sömu menningu
þar sem sagan geymir siði forfeðranna, landið geymir verk þeirra og tungan
hugsanir þeirra.
Þjóðin sem ein heild með vitund og vilja er möguleg af því að við vitum
að við deilum sömu sögu, sama landi og sömu tungu. En spurningunni er
enn ósvarað hvort og þá á hvaða forsendum þjóðin er eða geti verið sjálfstæð.
Leiðum aftur hugann að einstaklingnum. Vitund hans og vilji eru nauðsyn-
leg skilyrði fyrir sjálfræði hans. En þau eru ekki nægileg; vitund hans getur
verið í brotum, viljinn óstaðfastur. Til viðbótar þarf hann það sem kallast
TMM 1994:4
77