Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Qupperneq 80
skynsemi eða dómgreind, hæfileikann til að samræma vitund og vilja, tengja
þau saman í heilsteyptri hugsun, áformi eða breytni. Skorti mann alla
dómgreind er hann ekki sjálfr áður. En dómgreindina þarf að rækta og þjálfa
svo að hún geti unnið vel sitt verk. Og skynsemin verður að vera andlega
frjáls og óháð, eigi hún að tryggja sjálfstæði okkar.
Hefur þjóðin eitthvað til að bera sem jafnast á við skynsemi einstaklingsins
og gerir honum kleift að sjá fótum sínum forráð? Áður en við tökum á þeirri
spurningu er rétt að minna á ómetanlega þýðingu þess að einstaklingarnir
séu andlega frjálsir og menntaðir, ef þjóð á að geta verið sjálfstæð. Um þetta
segir Þórarinn Björnsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, þegar
hann er að fjalla um forsendur þjóðarsjálfstæðis:
Eitt hið allra nauðsynlegasta, til þess að hér þrífist sjálfstæði til
langframa, er áreiðanlega það, að hér séu menn andlega frjálsir í
víðasta skilningi. Á ég þá ekki eingöngu við það, að öllum sé heimilt
að tjá hugsanir sínar frjálst og óttalaust, heldur öllu ffemur hitt, að
menn séu ekki þrælar neins, að þeir séu andlega sjálfstæðir. Að vísu
má segja, að slíkt náist aldrei algerlega. Allir erum vér einhverju
háðir meira og minna. En því óháðari sem vér erum, því færari
verðum vér um að sjá hlutina eins og þeir eru, og því réttari verða
dómar vorir og niðurstöður. (Sjá Rætur og vœngir II, s. 174.)
Hið andlega frelsi einstaklinganna tengist að sjálfsögðu beint menntun
þeirra, enda segir Þórarinn á öðrum stað að menntun einstaklings hljóti
jafnan að verða „einn ríkasti þátturinn í hinni eilífu sjálfstæðisbaráttu
þjóðarinnar". (Sama rit, s. 223.)
Tvennt er það sem hamlar mest andlegu frelsi á íslandi, að dómi Þórarins:
skoðanir og peningar. Andlega frjálsir menn láta hvorki peninga né skoðanir
ráða yfír sér. Ef peningasjónarmiðið eitt ræður í hugum manna og þeir skeyta
ekki lengur um drengskap, „er þjóðin og sjálfstæði hennar í hættu.“ (Sama
rit, s. 174)
En það er líka annað sem ógnar andlegu frelsi manna og sjálfstæði
þjóðarinnar. Þórarinn segir:
Áður var talað um guð og föðurland. Nú höfum vér of margir tapað
sambandinu við hina æðstu veru, kjarna tilverunnar. Og í staðinn
fyrir föðurland er komið ríki. En sá er munur á ríki og föðurlandi,
að föðurlandi þjónuðu menn, en af ríki heimta menn. Og þau skipti
eru ekki góð fyrir sálina og þroskann. (Sama rit, s. 174.)
Hugleiðum þennan greinarmun: föðurlandið ísland — ríkið ísland. Föður-
landið sem slíkt er ekki sjálfstætt, heldur á allt undir þeim mönnum sem eiga
78
TMM 1994:4