Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Side 105
dóttur hljómaði í Morgunblaðinu kæmi á óvart, rétt eins og „Ærslafullur
harmleikur“, yfirskrift Auðar Eydal DV, Gunnar Stefánsson var eilítið alvar-
legri í Tímanum, sagði einfaldlega „Tsjekhov í öðru ljósi“ á meðan Friðrikka
Benónýs, Pressunni „gekk göldrum leikhússins á vald“ og sagði í rýni sinni:
„Og ef maður gengur inn í drauminn og gefst honum á vald bíður upplifun
sem varla á sinn líka í íslensku leikhúsi.“
Heimamenn
Þótt leiklistafólk hljóti í vinnu sinni að leggja sig eftir að koma á óvart með
túlkun sinni er það vissulega ekki nóg. Túlkunin verður að vera sannfærandi
í samhengi hvers tíma, hvers staðar í veröldinni, hverrar uppfærslu, hverrar
einstakrar sýningar. Á nýbyrjuðu leikári 1994-1995 viðist einmitt þessi
þáttur í leikhúslistinni vera nokkuð áberandi. í fyrstu sýningum leikársins
— Óskin í Borgarleikhúsinu, Macbeth hjá Leikhúsi Frú Emilíu og Sannar
sögur af sálarlífi systra á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins — er gengið út frá
því að leikritið þjóni sýningunni sem best. Forsendur þessara þriggja sýninga
eru reyndar afar ólíkar eins og sýningarnar sjálfar og aðeins í einu tilviki
raunverulega hægt að tala um leikgerð í eiginlegri merkingu. Hér á ég við
leikgerð Viðars Eggertssonar á svokölluðum Tangasögum Guðbergs Bergs-
sonar. Leikstjórar hinna sýninganna beggja eru einfaldlega að setja upp
leikrit og móta þau upp á nýtt í samræmi við ytri aðstæður, listrænt yfirbragð
og innhaldslegar áherslur túlkunarinnar. Persónum er til dæmis fækkað til
muna auk þess sem öllum hópsenum hermanna eða beiningamanna er
sleppt en texti þeirra lagður öðrum í munn eða hreinlega strikaður út.
Uppsetningar leikrita verða stöðugt kostnaðarsamari, yfirbygging leikhús-
anna viðameiri og kostnaður við að laða fólk í leikhúsið á afþreyingaröld
eykst. Um leið á að spara og í leikhúsinu eins og annars staðar er þá sparað
í mannskap, þeir sem fremja listina eru skornir niður. í hverri leiksýningu er
yfirleitt aðeins einn leikstjóri, einn leikmyndateiknari, einn Ijósahönnuður
og svo framvegis og því tæpast hægt að sleppa þeim. Leikararnir eru hins
vegar yfirleitt snöggtum fleiri og með því að fækka þeim má sýna fram á
raunverulega kostnaðarlækkun. Ekki veit ég hvort slíkar vangaveltur réðu
hnikun, þéttingu, umsköpun leikritanna tveggja sem nefnd eru hér að ofan
eða hvort hér er að verða sýnileg þróun sem hefur verið áberandi í vestræn-
um leikhúsum á síðustu áratugum. Innan þess túlkunarramma virðist sem
miðlun sögunnar eins og hún kemur frá hendi höfundar skipti ekki lengur
meginmáli, jafnvel heldur ekki hvort persónurnar á sviðinu séu trúverðug-
lega lifandi í lógísku samhengi hennar. Markmið leikstjóra og annars leik-
listafólks sem kýs að sigla í kjölfar þessarar þróunar virðist öðru fremur
TMM 1994:4
103