Náttúrufræðingurinn - 2012, Page 79
79
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
byrjun yngra Dryasskeiðs gekk út
Fossvogsdal.51,53 Tegundasamsetn-
ing skeldýra í Fossvogslögunum og
rannsóknir á samsætuhlutföllum
súrefnis í skeljum úr lögunum benda
til þess að á myndunartíma þeirra
hafi sjávarhiti og selta verið með
svipuðum hætti eða heldur lægri en
nú er.52,53 Skeldýrafánur í setlögum
sem mynduðust á Faxaflóasvæðinu
undir lok Allerødskeiðs vitna því
um mjög ólíkan sjávarhita. Jökul-
todda í setlögum í Borgarfirði ber
vitni um svellkaldan sjó, en jafnaldra
skeljar í Fossvogslögunum benda
til svipaðs eða heldur lægri sjávar-
hita en þar er nú. Hugsanlega hafa
áhrif kælingar og leysingarvatns frá
jöklum verið meiri í Borgarfirði en á
Reykjavíkursvæðinu.54
Eini setkjarninn á Íslandi sem
nær aftur á mitt Allerødskeið er úr
botni Torfadalsvatns á Skaga, en
kjarninn varpar ljósi á umhverfis-
og veðurfarssögu á landi á þessum
tíma.55,56,57 Frjókornagreiningar á
sýnum úr kjarnanum, ásamt mæl-
ingum á magni kolefnis, segja til
um gróðurfar í nágrenninu og líf-
ræna frumframleiðslu í vatninu, en
kísilþörungagreining veitir upp-
lýsingar um vatnshita og ísþekju á
Torfadalsvatni. Niðurstöður þess-
ara rannsókna sýna að fljótlega eftir
að svæðið umhverfis Torfadalsvatn
varð íslaust, breiddist graslendi hratt
út. Lífræn framleiðsla í vatninu var
lítil í fyrstu, líklega vegna þess að
það var ísi lagt mestan hluta ársins
og umhverfið nánast túndra. Undir
lok Allerødskeiðs hlýnaði verulega,
lyngmói breiddist út og frumfram-
leiðsla Torfadalsvatns jókst verulega.
Um hríð, eða í um 300 ár í lok Alle-
rødskeiðsins, var sumarhiti á Skaga
líklega svipaður eða ögn hærri en
hann er nú, um 10°C, áður en
skyndilega kólnaði í upphafi yngra
Dryasskeiðs.
Þegar líða tók á Allerødskeið
stækkuðu jöklar á Íslandi á ný.
Samanlögð áhrif aukinnar fergingar
landsins (vegna stækkandi jökla)
og hækkandi sjávarborðs (vegna
bráðnunar stóru meginlandsjökl-
anna) gerðu það að verkum að
sjávarstaða hækkaði á Íslandi og
náði hámarki um miðbik yngra
Dryasskeiðs.2,32
Framrás jökla á yngra
Dryasskeiði
Á síðustu árum hafa verið settar
fram nokkrar tilgátur um líklega
útbreiðslu jökla á Íslandi á yngra
Dryasskeiði, en þá gengu þeir veru-
lega fram miðað við stöðu þeirra
á Bølling- og Allerødskeiði.1,2,43,54
6. mynd. Líkleg stærð jökla á Íslandi á yngra Dryasskeiði, fyrir um 12.000 árum skv. niðurstöðum rannsókna á legu fjörumarka og
jökulgarða frá þeim tíma. Á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og víðar hefur stærð jökla verið áætluð með tilliti til legu fjörumarka.2 Rauð
lína umhverfis landið sýnir niðurstöðu líkanreikninga af stærð jökulsins við hámark síðasta jökulskeiðs.35 – Extent of glaciers in Iceland
in Younger Dryas times (white area) based on radiocarbon-dated shells or marine mammal bones (red dots), raised shorelines and ice-
contact features. Red solid line shows is the modelled extent of the LGM ice sheet.