Náttúrufræðingurinn - 2012, Qupperneq 135
135
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Árný E. Sveinbjörnsdóttir og Sigfús J. Johnsen
Náttúrufræðingurinn 82 (1–4), bls. 135–145, 2012
Ritrýnd grein
Fornveðurfar lesið úr
Grænlandsjökli
Rannsóknir á ískjörnum úr Grænlandsjökli sýna að jökullinn geymir a.m.k.
123 þúsund ára nákvæma og samfellda veðurfarssögu. Endurteknar bor-
anir í jökulinn sýna að veðurfar hefur verið mjög óstöðugt á síðasta jökul-
skeiði, en 25 sinnum hlýnaði snögglega um 10–15°C og síðan kólnaði aftur,
en mun hægar. Hlýindakaflarnir vöruðu flestir í um 1.000–2.000 ár. Mikill
munur er á hraða veðurfarsbreytinga við upphaf og lok síðasta jökulskeiðs.
Breytingin frá síðasta jökulskeiði í tiltölulega milt veðurfar, sem markaði
upphaf okkar eigin hlýskeiðs (nútíma) fyrir um 11,7 þúsund árum, gerðist
á einungis 3–50 árum eftir því hvaða breyta er skoðuð. Hröðust er breyt-
ingin í sk. tvívetnisauka. Breyting frá síðasta hlýskeiði (Eem) og yfir í síð-
asta jökulskeið, sem hófst fyrir um 122 þúsund árum, gerðist aftur á móti
á um 7.000 árum. Síðasta hlýskeið hefur verið um 5°C heitara en nú er, en
hæð jökulsins hefur þó verið svipuð og nú á öllum borstöðum nema Dye-3
á Suður-Grænlandi, en þar hefur jökullinn verið um 500 m lægri vegna
bráðnunar. Miðað við jökulskeiðið hefur veðurfar á nútíma verið stöðugt.
Þegar rýnt er nákvæmlega í gögn er þó ljóst að töluverðar breytingar hafa
orðið á þessu tæplega 12 þúsund ára tímabili. Mesta og örasta sveiflan varð
fyrir 8.200 árum, en þá kólnaði mjög snögglega um einar 4–5 gráður, hélst
kalt í u.þ.b. 100–200 ár en þá hlýnaði jafnsnöggt á ný. Minni kuldaköst, en
greinileg, hafa einnig orðið fyrir 11,3 þúsund árum og 9,3 þúsund árum.
Hlýjast á nútíma var á tímabilinu fyrir 9.000 til 6.000 árum. Af öðrum veður-
farsbreytingum sem sjást í kjörnunum nálægt okkur í tíma má nefna hita-
aukninguna upp úr 1920 og köldu tímabilin í lok 17. og 14. aldar.
Inngangur
Á undanförnum árum hefur áhugi
manna beinst í auknum mæli að
rannsóknum á veðurfarssveiflum
fyrri tíma og orsökum þeirra. Þennan
áhuga má ekki síst rekja til þeirrar
hlýnunar sem menn telja sig nú sjá
og hefur verið útskýrð með aukn-
ingu á styrk svokallaðra gróður-
húsalofttegunda í andrúmsloftinu
vegna ýmiss konar mengunar af
mannavöldum. Æ sterkari vísbend-
ingar eru um að hlýnunin geti
raskað umhverfi jarðarinnar veru-
lega. Breytt straumakerfi, sem drægi
úr Golfstraumnum, gæti haft mikil
áhrif á fiskistofna og búsetuskilyrði,
meðal annars í okkar heimshluta.1
Náttúrulegar veðurfarssveiflur eru
þekktar frá fyrri jarðlífsöldum. Þær
eru skráðar í jarðlög og sem dæmi
má nefna að á kvarter, en svo nefnist
1. mynd. Séð yfir Neem-búðirnar á Norðvestur-Grænlandi (77.45°N 51.06°W). – The Neem camp, NW Greenland (77.45°N 51.06°W).