Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Blaðsíða 31
30 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
umhverfisbreytingar frá landnámi. Mat á útbreiðslu skóglendis hefur
verið afar breytilegt í undangengnum rannsóknum. Út frá líkani byggðu
á áætluðum loftslagsbreytingum fyrri tíma og hæð lands komust Rannveig
Ólafsdóttir o.f l. (2001) að þeirri niðurstöðu að birkiskógar á Íslandi hefðu
aðeins þakið um 8000 km2 (~8%) lands við landnám. Þetta er verulega á
skjön við það sem aðrir hafa áætlað, að skóglendi hafi þakið mun stærra
landsvæði, ef til vill um 25.000-40.000 km2 (~25-40%) lands (t.d. Andrés
Arnalds 1987; Ása L. Aradóttir og Thröstur Eysteinsson 2005). Álíka
gildir um samfellda þekju annars gróðurs sem er jafnan talin hafa verið
mun víðáttumeiri við landnám en hún er nú, eða á bilinu 54.000-65.000
km2 (~54-65%; Andrés Arnalds 1987; Rannveig Ólafsdóttir o.f l. 2001).
Skóglendi þekur nú aðeins um 1000 km2 (~1%) lands, annað samfellt
gróðurlendi um 28.500 km2 (~28,5%), ósamfellt gróðurlendi um 23.900
km2 (~23,9%) og auðnir yfir 37.000 km2 (~37%) (Ólafur Arnalds 2008).
Þótt svo mörgum spurningum, sem lúta að umhverfisþróun á Íslandi
frá landnámi, sé enn að nokkru ósvarað er ljóst að forsendur til að
finna þessum spurningum svör eru óvíða betri en hér. Möguleikar til
að skapa rannsóknum, sem byggjast á breytum fengnum úr setlögum,
góðan og áreiðanlegan tímaramma eru víðast hvar afar góðir, þökk sé
gjóskulögunum, sér í lagi landnámsgjóskunni sem finna má um stóran
hluta landsins (Guðrún Larsen og Jón Eiríksson 2008) og hefur verið
aldursgreind til um 870 (Karl Grönvold o.f l. 1995). Þá er íslenskur
eldfjallajarðvegur eðlisléttur og viðkvæmur fyrir rofi og breyttar aðstæður
af völdum loftslags eða mannvistar koma gjarnan skýrt fram í hraða og
eðli jarðvegsmyndunar (Guðrún Gísladóttir o.f l. 2010).
Það sem á eftir fylgir er samantekt úr doktorsverkefni höfundar,
Environmental change around the time of the Norse settlement of Iceland, sem
var varið í Aberdeen í Skotlandi árið 2007. Verkefnið var unnið innan
fjölþjóðlegs og -faglegs rannsóknarverkefnis, Landscapes Circum-Landnám
(Edwards o.f l. 2004). Verkefninu var ætlað að varpa skýrara ljósi á
umhverfi og umhverfisbreytingar á Íslandi frá því fyrir landnám, um það
og eftir. Hér verða reifaðar helstu niðurstöður þessa verkefnis þar sem
meðal annars var spurt:
- Hver var þróun gróðurfars á Íslandi á síðustu öldum fyrir landnám?
- Hvernig var gróðurfari háttað við landnám?
- Hvers eðlis voru áhrif landnámsins á gróðurfar?
- Má greina og tímasetja upphaf búsetu við einstaka rannsóknastaði?