Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 75
74 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
meiri ull en annað fé, allt að 2 kg á ári en af ám og yngri sauðum fékkst
yfirleitt minna eða tæp 1,5 kg.54 Þá var ullin talin best af sauðum en á hinn
bóginn er mögulegt að hvorutveggja, bæði ullarmagn og -gæði megi rekja
til útigangsins fremur en líffræðilegra orsaka.55 Ullargæði eru einmitt ein
meginástæða þess að menn mæla með fjárborgum að nýju á 18. öld, þegar
ullin fór að skipta verulegu máli vegna Innréttinganna. Fjárborgir fyrir
þann tíma gætu verið til marks um að menn hafi haft hugann sérstaklega
við ullarframleiðslu þótt auðvitað hafi aðrar afurðir, kjöt, feiti og mjólk,
vissulega einnig verið til staðar. Útigangur fjár og fjárborgir þurfa alls
ekki að vera til marks um slæma meðferð, hnignun eða úrræðaleysi þótt
þeirri skoðun sjáist bregða fyrir á 19. öldinni. Fjárhús tíðkuðust snemma
hér á landi56 en bændur gætu hafa kosið útiganginn einfaldlega vegna þess
að þannig var hægt að fá betri ull. Það má velta því upp hvort áhættan
hafi þótt eðlileg og fjárfellir við og við einfaldlega verið hluti af lögmáli
sem var öðrum þræði gert ráð fyrir. Meira að segja þótti sumum á 20.
öld ekkert óeðlilegt við að nokkrar skjátur féllu úr hor á hverju vori.57 Á
þetta minnir máltækið „að setja fé á Guð og gaddinn“, þ.e. fé var sett á
útigang í þeirri von að sá almáttugi sæi aumur á því og skilaði lífsneista
í skjátunum að vori. En hvers vegna eru þá fjárborgir lagðar af á 17. öld
eða í upphafi þeirrar átjándu í Grímsnesi og jafnvel víðar? Hugsanlegt er
að framleiðslumynstur hafi breyst. Ef við gerum ráð fyrir að það hafi m.a.
tekið mið af erlendum mörkuðum má benda á að útf lutningur á vaðmáli
er talinn hafa dregist mikið saman á 17. öldinni og reyndar áfram á þeirri
átjándu.58 Sömuleiðis er talið að kjötúf lutningur hafi verið lítill á 17. öld
þótt reyndar skorti nákvæmar tölur.59 Hann jókst hins vegar stórum á 18.
öld með aukinni eftirspurn í Danmörku.
Ef til vill hafa fjárhús leyst borgirnar í Grímsnesi af hólmi. Þetta mætti
túlka sem minni áhættusækni og jafnvel aukna áherslu á kjötframleiðslu og
mjólkur á kostnað ullarinnar. Niðurlagning fjárborga endurspeglar í það
minnsta ekki að Grímsnesingar hafi hætt að ala sauði. Í upphafi 18. aldar
fást í fyrsta skipti heildartölur yfir sauðfé í landinu með Jarðabók Árna og
Páls og þá eru sauðir í Grímsnesi tæplega helmingur alls sauðfjár. Ungir
sauðir eru í meirihluta á svæðinu, um helmingi f leiri en gamlir sauðir.
Almennt voru gamlir sauðir taldir áhættuminnsta eignin, enda hæfastir til
að lifa á útigangi. Á móti má nefna að í Saurbæjarhreppi i Eyjafirði voru
á sama tíma helmingi f leiri gamlir sauðir en ungir.60 Þetta gæti bent til
aukinnar hýsingar í Grímsnesi, að áhættan hafi verið minni og ekki hafi
þurft gamla sauði til að bjarga sér á útigangi. Jafnvel gætu yngri sauðir
hafa náð fullum vexti fyrr á gjöf og því verið hægt að slátra þeim fyrr.