Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Blaðsíða 70
FJÁRBORGIR 69
að líkindum hlaðnar á 19. öld og allt fram á þá tuttugustu. Aðeins er
getið um eina borg á ónafngreindum bæ í sóknalýsingu Klausturhóla- og
Búrfellssókna.43 Í Grímsnesi eru meintar borgir oft stór og sigin mannvirki,
oftast um eða yfir 10 m í þvermál, en í Rangárvallasýslum finnast oftar lítil
mannvirki sem virðast hafa verið topphlaðin, gjarnan um 6 m í þvermál.
Á nokkrum staðanna eru f leiri en ein rúst og fara þar fremstar í f lokki
Litlu- og Grænuborgir á Hömrum, alls 9 rústir. Á Hömrum var rekinn
búskapur frá Skálholti frá 1539-1708 og má vera að rústaþyrpingarnar séu
frá þeim tíma, enda engan veginn sambærilegar við rústir tengdar búskap
á öðrum jörðum. Þær hafa þó ekki verið aldursgreindar. Flestar þeirra eru
hring- eða sporöskjulaga en sumar með viðbyggingum. Má geta þess að
til er virðing frá Skálholti frá árinu 154144 þar sem talin eru upp alls konar
útihús: hesthús, skemmur, fjós o.f l. á staðnum en engin fjárhús. Kann það
að benda til annars tveggja: Að fjárhús hafi einfaldlega ekki tíðkast og allt
fé verið haft á útigangi eða að Skálholtsféð hafi verið hýst á öðrum bæjum
og koma þar Hamrar vel til greina.
Langf lestar rústirnar í Grímsnesi eru annars hringlaga eða því sem
næst og á bilinu frá 6 og upp í 18 m í þvermál en oftast 10-12 m í
þvermál. Flestar eru þær annaðhvort sporöskjulaga haugar sem eru
hæstir í miðju eða hringlaga rústir með dæld í miðju, yfirleitt 10-12 m
í þvermál. Á þremur bæjum hafa beitarhús verið byggð í námunda við
borgirnar í seinni tíð, í Eyvík, Ásgarði og á Miðengi. Annarsstaðar, t.d. á
Klausturhólum hafa beitarhús verið höfð á nokkrum stöðum á jörðinni,
f lest í hrauninu í námunda við Seyðishóla en ekkert þeirra í námunda við
borgirnar. Nokkur dæmi eru um Borgarörnefni eða skrif legar heimildir
um fjárborgir þar sem ekkert fannst við vettvangskönnun: Borgarhólar
í Öndverðarnesi, Borgarás í Arnarbæli, Borgartún á Stóra-Mosfelli og
Rústabrún í Vatnsholti, en þar átti að sjá móta fyrir gamalli fjárborg.
Uppgröftur
Þótt oft sé fullyrt að rústirnar séu af fjárborgum er það yfirleitt alls ekki
augljóst. Til að reyna að varpa ljósi á mannvirkin voru grafnir skurðir í
fjórar meintar fjárborgir í Grímsnesi haustið 2002. Ætlunin var að reyna
að varpa ljósi á aldur þeirra og ekki síður að kanna hvernig yfirborðslög
inni í tóftunum litu út, hvort þar væri eitthvað sem gæfi til kynna
hvort mannvirkin hefðu verið reist fyrir skepnur. Með í för var Bryndís
Róbertsdóttir, jarðfræðingur, og greindi hún gjóskulög. Annars vegar var