Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 102
SKAGFIRSKA KIRKJURANNSÓKNIN 101
Íslands hafði tekið 2003, innan við og í gegnum hringlaga garðlagið,
opnaðir aftur. Fimm metrum innan kirkjugarðsveggjarins komu fram
ummerki a.m.k. fjögurra grafa, þar á meðal gröf ungbarns. Tvær grafanna
voru opnaðar og reyndust beinagrindur kvenna í þeim báðum. Grafirnar
voru 70 og 90 sm djúpar, grafnar að hluta niður í fornan sjávarkamb. Þær
virðast báðar hafa verið teknar eftir að gjóska úr Heklugosi 1104 féll.
Hinsvegar virðist sú gjóska liggja á sínum stað yfir ungbarnsgröfinni og
annarri gröf syðst í skurðinum.
Kirkjugarðurinn er hringlaga, um 25 metrar í þvermál og hefur
kirkjugarðsveggurinn verið hlaðinn eftir 1104, undirstaða veggjarins
er úr grjóti en garðurinn er annars úr torfi. Töluverð vinna hefur verið
lögð í gerð grafreitsins en lítill náttúrulegur jarðvegur virðist hafa verið
ofan á malarkambinum sem garðurinn stendur á og hefur torf verið lagt
niður, að því er virðist til að hækka grafreitinn upp og slétta, bæði fyrir
og eftir gjóskufallið 1104. Vera kann að hluti þessara torf laga sé leifar eldri
kirkjugarðsveggjar og garðurinn sem nú sést á yfirborðinu (byggður eftir
1104) hafi þá verið hlaðinn umhverfis hinn eldri sem sléttað hafi verið
úr. Torf sem lagt hefur verið niður í garðinn eftir 1104 lá yfir gröfunum
og hefur líklega haft þann tilgang að slétta svæðið innan garðs. Óvíst er
hvort það hefur verið gert á meðan garðurinn var enn í notkun eða eftir
að hann var af lagður.
Seinni tíma túngarður liggur yfir norðurhluta kirkjugarðsins og virðist
ekki í neinum tengslum við hann. Þegar rýnt er í svarthvíta loftmynd
af þingstaðnum sjást óljósar leifar eldra garðlags innan hins, mögulega
túngarður býlis sem kirkjugarðurinn hefur tilheyrt.13 Líkur eru til að
þarna hafi verið býli á 11. öld þegar kirkjugarðurinn var gerður og þar
hafi verið búið a.m.k. svo lengi sem jarðsett var í garðinn eða fram á 12.
öld. Örnefnið Litli-Garður á við túngarðinn og mannvirki innan hans sem
talin eru hafa tilheyrt seinni alda hjáleigu frá Garði. Tilvist kirkjugarðs á
11. og 12. öld bendir til að þar hafi varla verið hjáleiga eða afbýli og því
má spyrja hvort þarna sé upphaf legt bæjarstæði Garðs eða hvort um áður
óþekkt býli sé að ræða.
Tóft er í kirkjugarðinum miðjum og líkist mjög þeim tóftum sem eru
á svæðinu og hafa verið túlkaðar sem búðatóftir. Tóftin virðist tvískipt og
snúa norður-suður og því ekki í samræmi við það sem búast mætti við af
kirkjutóft sem ætla mætti að lægi austur-vestur. Búðartóftin, sem grafið
var í 2003, var þannig gerð að veggir hennar voru að grunni til hlaðnir
úr grjóti og torfi. Þeir virtust mun þykkari á yfirborði en hinir eiginlegu
veggir þar sem mokað hafði verið út úr tóftinni og mannvistarlög höfðu