Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Side 143
142 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
jarðhús þessi séu gerðfræðilega náskyld annarri gerð mannvirkja sem
víða er að finna, sérstaklega á Suðurlandi, en það eru manngerðir hellar.
Árni Hjartarson, Guðmundur J. Guðmundsson og Hallgerður Gísladóttir
gerðu umfangsmikla rannsókn á hellum á Íslandi og gáfu út í bók árið
1991, Manngerðir hellar á Íslandi. Þar eru þeir skilgreindir sem „göng
eða hvelfingar sem menn hafa holað í hart eða hálfhart berg“ og er þar
aðallega átt við sandstein eða móberg. Í ritinu er fjallað um 170 manngerða
hella á um 90 bæjum og eru þeir algengastir á svæðinu frá Ölfusi og austur
í Mýrdal, sem skýrist kannski fyrst og fremst af því að þar er heppilegt
berg til að hola innan. Aðeins fjórir hellar hafa fundist á Norðurlandi.
Sumir þessara hella eru ævagamlir og hafa þeir verið notaðir sem t.d.
fjárhús, hlöður, brunnhús eða geymslur af ýmsu tagi. Oft tengjast þeir
útihúsum og dæmi eru um að þeir tengist sjálfum bæjarhúsunum. Hella
af þessu tagi er ekki að finna í Noregi en þeir eru þekktir víða annars
staðar í Evrópu. Sennilega hafa menn stundað hellagerð á landnámstíð á
Íslandi og allt fram á 20. öld.2 Það sem greinir jarðhús þau sem lýst er í
Íslendingasögum frá hellunum er kannski fyrst og fremst hlutverk þeirra.
Þau þjóna sem f lóttagöng og fylgsni manna sem urðu að hafa hægt um
sig. Mannvirki þessi hafa því það form sem þjónar þessu hlutverki best,
oftast jarðgöng sem tengjast bæjarhúsum og liggja að einhverjum þeim
stað sem komast má óséður á brott frá. Rannsókn þessi beinist að slíkum
mannvirkjum og verður þá aðallega fjallað um tvær gerðir jarðganga sem
víða eru nefnd í fornritum, þ.e. jarðhús og forskála, sem einnig eru göng
og gjarnan neðanjarðar að hluta.
Í sumum strandhéruðum Norðvestur-Evrópu er að finna allsérstæðar
byggingar sem gengið hafa undir heitinu souterrain. Var hugtakið fyrst
notað í riti eftir Thomas Wood snemma á 19. öld, en orðið hefur hann
dregið af latínu, subterraneus, sem þýðir neðanjarðar.3 Um er að ræða
sérstaka gerð neðanjarðarmannvirkja og spannar aldur þeirra nokkuð
vítt tímabil. Dreifing þeirra er hins vegar takmörkuð við ákveðin svæði.
Þau eru vel þekkt á Bretagneskaga og á Skotlandi, en síður í Cornwall
og Jótlandi. Á þessum svæðum hafa byggingarnar verið aldursgreindar
til ca. 600 f.Kr. – 300 e.Kr. Á Írlandi hafa þær fundist um alla hluta
eyjunnar en áætlað hefur verið að slíkir minjastaðir þar séu að minnsta
kosti um 3000-3500 talsins sem er meira en á nokkrum öðrum stað.
Meirihluti hinna írsku souterrains voru byggðir á 8. öld og fram á 12./13.
öld og gefur það þeim nokkra sérstöðu. Byggingar þessar eru manngerð
jarðgöng og neðanjarðarklefar, oft í einhverjum tengslum við íbúðarhús.
Flestir fræðimenn hafa talið að mannvirki þessi þjónuðu sem f lóttaleiðir