Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Qupperneq 219
218 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Í safninu vann Halldór margvísleg störf framan af, enda þurftu starfsmenn
þá lengi vel að taka til hendi við hvaðeina og sérhæfing um störf ekki orðin
eins og síðar varð. En brátt varð aðalstarf hans skráning myndasafnanna,
ljósmynda- og prentmyndasafnsins og mannamyndasafnsins, eins og þau
nefndust þá, en einnig bókasafnsins framan af árum. Söfnin jukust sífellt og
er frá leið varð ærinn starfi eins manns að sinna skráningu myndasafnanna
og útlánum mynda, sem voru orðin gríðarmikil, bæði til birtingar í ritum
og til einstaklinga.
Halldór var einkar vandaður í öllum störfum, skipulagður og
vinnusamur og féll aldrei verk úr hendi. Hann var fjölfróður á öllum
sviðum íslenzkrar menningarsögu, minnugur og athugull og í störfum
hans kom sér vel hin staðgóða þekking hans á ævum Íslendinga, bæði á
fyrri tíð og einnig samtíðarfólks.
Halldór var víðlesinn, bæði á fagurbókmenntir og fræðirit og minnugur
á það sem hann las og heyrði. Hann var orðvar og ræddi lítt dægurmálafjas,
en væri hann spurður um menn og málefni dagsins vissi hann oft meira um
þau að segja en þeir sem umræður hófu en hafði ekki orð á að fyrra bragði.
Hann var afar glöggur og smekkvís á íslenzkt mál, enda las hann oftlega
yfir texta og prófarkir að greinum sem birtast áttu á vegum safnsins. Hann
hafði næma tilfinningu fyrir því sem kallað var „gott mál“ eða jafnvel
„rétt mál“, meðan þau hugtök voru tekin gild. Fengu og margir hann
til að lesa yfir texta til birtingar og eins prófarkir bóka og greina. Hann
skrifaði allnokkrar greinar um myndasöfnin í Árbók Fornleifafélagsins,
einnig tók hann saman ritaskrár og skrifaði greinar um bókmenntir. Þá
þýddi hann nokkur rit og munu margir kannast við ævisögu Stefans
Zweig, Veröld sem var, er hann þýddi ásamt Ingólfi Pálmasyni kennara og
þykir þýðingin snilldarverk.
Þjóðrækni og hógværð var Halldóri í blóð borin, enda sveitamaður
að uppeldi. Sumt í fari þjóðlífsins féll honum lítt, hafði þó sjaldan orð á
enda vissi hann að nútíminn lagði mjög annað mat á hluti og hafði önnur
sjónarmið en hann ólst upp við. Þá voru aðhaldssemi, nýtni og hagsýni
grónar dyggðir sem og gætni í hvívetna, enda allsnægtaþjóðfélagið enn
fjarri.
Halldór var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Bodil Margrethe Sahn
Smith, danskrar ættar, dönskukennari við Menntaskólann í Reykjavík.
Þau skildu en einkabarn þeirra var Snorri, er lést af slysförum 38 ára að
aldri. Síðari kona Halldórs var Gyða Thorsteinsson hjúkrunarfræðingur,
hún andaðist árið 2006. Þau voru barnlaus.