Gerðir kirkjuþings - 1991, Side 9
Og sorglegt er þaö, þegar við tökum til meöferðar nú á þessu þingi nýtt
frumvarp um kirkjubyggingar, að framlag ríkisins til kirkjusmíði skuli skorið niður í eina
milljón. Já eina milljón fær kirkjubyggingarsjóður samkvæmt frumvarpi til fjárlaga, og
var þó endurskoðun þessa frumvarps talin nauðsynleg, af því að í hinu fyrra var gert
ráð fyrir ákveðnum hluta hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, í smíði kirkju. Þótti ekki
langsótt eftir hliðstæðum, þegar vitnað var til skólabygginga og félagsheimila. Verðum
við að treysta því, að þingmenn, sem vel þekkja þörf fyrir góðar kirkjur og
safnaðarheimili fái þessu breytt í umíjöllun um frumvarp til fjárlaga.
Að beiðni biskups skipaði kirkjumálaráðherra sérstaka nefnd til að fjalla um
málefni Skálholts, staðar, kirkju og skóla. Er formaður hennar Lára Margrét
Ragnarsdóttir alþingismaður. Er þess vænst, að nefndin leggi tillögur sínar fyrir ráðherra
og biskup við lok þessa árs. En töluverð uppstokkun mála í Skálholti hlýtur að fylgja
nýrri starfstilhögun Skálholtsskóla og ráðningu nýs rektors og flutnings vígslubiskups
austur. Hefur nefndin kynnt sér málefnin vel, en þeir sem tilnefndu nefndarmenn voru
auk ráðherra og biskups, menntamálaráðherra, kirkjuráð og fjármálaráðuneytið.
Auk þess að bjóða velkominn nýjan ráðherra kirkjumála, sem mun flytja ræðu
sína síðar á þinginu, fagna ég nýjum vígslubiskupi og á hann sæti á kirkjuþingi. Býð ég
velkominn séra Bolla Gústavsson á Hólum til veglegs embættis síns og á kirkjuþingi.
Forvera hans, séra Sigurði Guðmundssyni eru þökkuð störf hans á kirkjuþingi í
kirkjuráði, á Hólum og Þingeyjarsýslum og vítt um land. Og gott er að hafa hann og
konu hans, frú Aðalbjörgu Halldórsdóttur hér hjá okkur og séu þau innilega velkomin.
En við bjóðum ekki aðeins velkomna og þökkum, heldur kveðjum við einnig.
Hinn annan þessa mánaðar andaðist séra Bjarni Sigurðsson, löngum kenndur við
Mosfell, þar sem hann var sóknarprestur, uns hann réðst kennari við guðfræðideild
Háskóla Islands. Séra Bjarni sat á kirkjuþingi frá 1970 til 1976 og var auk þess í
kirkjuráði allan þann tíma. Séra Bjami bjó yfir víðtækri þekkingu, sem gagnaðist honum
vel á þessum vettvangi kirkjulegs starfs, en auk þess að vera vel lesinn guðfræðingur,
var hann lögfræðingur og hafði um hríð starfað sem blaðamaður. Gáfur hans voru
traustar, velvilji styrkur og glöggur skilningur. Hann ritstýrði handbókinni Kirkjumál -
lög og reglur, auk þess sem hann ritaði margt um kirkjuleg málefni og kirkjurétt, en
um hann fjallaði doktorsritgerð hans.
Við vottum ástvinum dr. Bjarna samúð okkar og tjáum virðingu okkar og
þökkum látnum bróður með því að rísa úr sætum.
Fyrr kom kirkjuþing saman annað hvert ár. Til mikilla bóta er það, að nú
fundum við árlega. Þetta gefur þingmönnum meiri möguleika til að fylgjast með málum
og hafa áhrif á framgang þeirra og um leið að bregðast svo við, sem hver tími krefst.
Ég endurtek þakkir og bið þingi, kirkju og þjóð blessunar Guðs.
Tuttugasta og annað kirkjuþing hinnar íslensku Þjóðkirkju er sett.
6