Gerðir kirkjuþings - 1991, Side 107
I
1. Önnur grein frumvarpsins orðist svo:
Biskup íslands gerir tillögu til ráðherra um veitingu prestsembætta að fenginni
tillögu stöðuvalsnefndar, sem er biskupi til ráðuneytis. Stöðuvalsnefnd er skipuð
sjö mönnum: Prófasti þess prófastsdæmis, þar sem veita á prestsembætti,
vígslubiskupi þess stiftis, þar sem veita á embætti, tveimur fulltrúum tilnefndum af
Prestafélagi Islands, tveimur fulltrúum tilnefndum af Leikmannastefnu
Þjóðkirkjunnar og einum fulltrúa tilnefndum af Guðfræðideild Háskóla Islands.
2. Aðrar greinar frumvarpsins falli niður, en við bætist ákvæði um gildistöku og
niðurfellingu laga um veitingu prestakalla nr. 44/1987.
GREINARGERÐ
Hér er lagt til, að veiting prestakalla verði alfarið í höndum biskups og ráðherra
og að biskupi til ráðuneytis verði sjö manna stöðuvalsnefnd. Öldum saman var
veitingavaldið fyrst og fremst í höndum biskups. Þessi tillaga styðst því við gamla
hefð og einnig við hugmyndir og tillögur, sem oft hafa komið fram innan kirkjunnar
síðustu áratugi. Þessi skipan væri einnig í samræmi við ýmsar opinberar
stöðuveitingar í þjóðfélaginu.
Ljóst er, að núgildandi lög voru spor í rétta átt, en að áliti margra
málamiðlun og skref til að stíga sporið að fullu síðar, svo sem hér er lagt til.
II
Geti kirkjuþing ekki fallist á þessa róttæku breytingu, eru eftirfarandi
breytingartillögur lagðar fram:
1. Þriðja grein frumvarpsins falli niður, en í staðinn verði gerð breyting á
upphafi 3. gr. gildandi laga og verði 1. og 2. mgr. greinarinnar svohljóðandi:
Kjörmannafundur er lokaður og stýrir prófastur honum. Á fundinum skulu
umsóknir ásamt umsögnum biskups liggja frammi til athugunar. Biskupi til
ráðuneytis skal vera stöðuvalsnefnd. Hana skipa þrír menn, einn tilnefndur af
Guðfræðideild Háskóla íslands, einn tilnefndur af Prestafélagi íslands og einn
tilnefndur af kirkjuráði. Biskup setur nefndinni erindisbréf.
2. Lagt er til, að felld verði úr gildi ákvæði um, að almennar prestskosningar
skuli fara fram í prestakalli, ef "25 af hundraði atkvæðisbærra sóknarbarna
í prestakallinu" óskar þess.
Fallist kirkjuþing á þessa breytingu, fellur allur þriðji kafli gildandi laga
niður, einnig 5. gr. og 6. gr. breytist.
104