Són - 01.01.2003, Page 78
RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON78
Hún var léttúðardrós,
pabbi léttmatrós –
og hafði létzt í júní um £.
Innan um þessar gáskafullu fimmhendur Þorsteins má svo finna
skáldskap sem á lítið skylt við hinar upprunalegu limrur hvað efni
varðar. Ein limran í bókinni nefnist „Tár“:9
Þar sem lækurinn rann og rann
drúpti rós, og lækurinn fann
alveg niður í ós,
er hin rauða rós
felldi regndropa niður í hann.
Þessi limra er fyrst og fremst fallegur skáldskapur, ástarljóð, sem jafn-
ast á við það besta sem gert hefur verið í þeim efnum.
Frá því að kver Þorsteins kom út hefur limran átt sívaxandi vin-
sældum að fagna meðal Íslendinga. Ástæðurnar fyrir því að landinn
tók slíku ástfóstri við þetta breska form kunna að vera ýmsar. Ef til
vill er þó skýringarinnar fyrst og fremst að leita í forminu sjálfu og þá
einkum síðustu línunni.
IV Vinsældir limrunnar og ljóðstafir
Undir lok 20. aldar, þegar vinsældir lausavísunnar tóku aftur að
aukast eftir nokkra lægð, hafði vísnahefðin lagað sig að breyttum
aðstæðum. Í seinni tíð er það aðal þeirra vísna sem vinsældum ná
meðal almennings að vera hnyttnar. Er efni þeirra þá gjarnan kynnt í
fyrripartinun, þriðja braglínan (þriðja og fjórða ef um limru er að
ræða) er síðan einhvers konar framhald af kynningunni og loks
kemur síðasta línan með það óvænta, brandarann. Á henni byggist
það hvort vísan verður fleyg.
Auðvitað hafa alltaf verið til vísur sem gerðar voru á þennan hátt
en eftir endurvakningu í lausavísnagerð á síðustu áratugum 20. aldar
hafa þessi einkenni yfirskyggt öll önnur. Vísur um alvarleg efni,
skammarvísur, ástavísur eða heimspekilegar vangaveltur í fjórum
línum njóta ekki mikilla vinsælda um þessar mundir, aðeins þær
fyndnu með einhvers konar fáránleika í síðustu línunni. Og limran
9 Þorsteinn Valdimarsson (1965:65).