Són - 01.01.2003, Blaðsíða 81
LIMRUR 81
Vandasamara er að fást við stuttu línurnar tvær; þar eru ýmist tveir
ljóðstafir eða þrír. Stuttu línurnar geta hvort sem er verið einar sér um
ljóðstafi eða tengst fimmtu línunni. Sú regla gildir um þær að þar
verður ávallt að hafa ljóðstaf í fyrra risi seinni línunnar. Þetta stafar af
því að ýmist standa þær eins og tvær braglínur og ber sú seinni
höfuðstaf sem verður að vera í fyrsta risi. Hins vegar má líka hugsa
sér að þær standi sem ein braglína. Þá er um að ræða fjórar kveður
(bragliði) með tveimur stuðlum og verður annar þeirra að vera í
þriðju kveðu eins og í vísum undir rímnaháttunum (þriðja kveðan er
þá fyrri kveða seinni línunnar).
Fyrri stuttlínan (þ.e. þriðja lína) má hafa tvo stuðla en þarf ekki
nema einn vegna þess hve stutt hún er (sbr. til dæmis fornyrðislag og
ljóðahátt).
Hér verða nú sýnd dæmi um stuðlasetningu í stuttu braglínunum
tveimur, þriðju og fjórðu línu limrunnar. Fyrst skal gripið niður í
Limrur Þorsteins Valdimarssonar. Þessa kallar hann „Samvizku“:15
Hún Snotra er móðir að Snató,
en Snató er undan Plató.
Hann er skelfilegt svín,
en þó skammast hann sín
nið’r í skott, ef við köllum hann Nató.
Hér eru tveir stuðlar í stuttu braglínunum, einn í hvorri, og þær tengd-
ar með höfuðstaf við þá fimmtu. Við getum sett línurnar þannig upp:
Hann er skelfilegt svín, en þó skammast hann sín
nið’r í skott, ef við köllum hann Nató.
Séu þessar línur settar svona upp er annar stuðullinn í þriðju kveðu
fyrri línunnar.
Í framhaldi af þessu er rétt að benda á að auðvitað mega báðir
stuðlarnir vera í fjórðu braglínu. Hér má líta á limru eftir Jóhann S.
Hannesson:16
Sértu fríður, er gróflega gaman
að gera sig ljótan í framan
15 Þorsteinn Valdimarsson (1965:56).
16 Jóhann S. Hannesson (1979:15).