Són - 01.01.2010, Page 9
Þorgeir Sigurðsson
Þróun dróttkvæða og vísu-
orðhlutar að hætti Hans Kuhn
Inngangur
Í lýsingu sinni á dróttkvæðum hætti í Snorra-Eddu, skipti Snorri
Sturluson sérhverri dróttkvæðri vísu í tvo helminga, fjóra fjórðunga
og átta vísuorð. Hans Kuhn (1983:89) gekk lengra og skipti hverju
vísuorði í tvo hluta og þar með hverri vísu í 16 vísuorðhluta með
kenn ingu sinni um braghvíld, Zäsurgesetz.
Helsta röksemd Kuhns fyrir þessari kenningu var sú að stökum
vísuorðum mætti jafnan skipta í tvennt þannig að í báðum hlutum
kæmu fyrir skothending og stuðull. Hann fullyrti að ekki væru til
örugg dæmi frá því fyrir 1200 um vísuorð sem vikju frá þessari reglu.
Þessari fullyrðingu hefur ekki verið andmælt en efasemdir hafa engu
að síður verið settar fram um að gagnlegt sé að skipta sérhverju
vísuorði, samanber umfjöllun Kristjáns Árnasonar (1991:144) og Kari
Ellen Gade (1995:52–55).
Hér verður staðfest sú athugun Hans Kuhn að tiltekin gerð vísu orða
komi ekki fyrir í dróttkvæðum. Þetta þýðir að mögulegt er að skipta
stökum vísuorðum í tvo hluta á þann hátt sem Kuhn hugsaði sér, en þó
er það engin nauðsyn. Til að lýsa þróun drótt kvæða verður engu að
síður rökstutt að það geti verið til einföldunar að gera ráð fyrir skilum
í stökum vísuorðum sem líkjast skilum á milli stakra og jafnra vísuorða.
Eftirfarandi er sett fram til að skýra röksemdafærslu Hans Kuhn:
Vegna þess að hefðbundin dróttkvæð vísuorð enda jafnan á hend -
ingu í hnígandi tvílið, koma aðeins til greina eftirtaldar þrjár raðir af
stuðlum og skothendingum.
(1) Stuðull, Skothending, Stuðull, Skothending t.d.
Brunnu beggja kinna Korm., lv. 2
(2) Skothending, Stuðull, Stuðull, Skothending t.d.
Kinna beggja brunnu Tilbúið dæmi
(3) Stuðull, Stuðull, Skothending, Skothending t.d.
Beggja brunnu kinna Tilbúið dæmi