Són - 01.01.2010, Blaðsíða 25
Heimir Pálsson
Fyrstu leirskáldin
Sturla Þórðarson var bara sex ára og hefur væntanlega alls ekki verið
viðstaddur þegar útrásarvíkingurinn Snorri Sturluson, föðurbróðir
hans, náði fari frá Eyjum og upp á Bakkafjörur. Hann var að koma
heim síðhausts árið 1220 eftir ævintýralega höfðingjaheimsókn til
Noregs og Gautlands. Hann varð síðbúinn frá Noregi, segir Sturla
svo sem til skýringar á að Snorri hreppir illvíg haustveður úti fyrir
Austfjörðum og lætur siglutré sitt þar.1 Má reikna með að það hafi
verið barningur að komast til Eyja, þaðan sem síðan verður að fá
flutn ing á bátum. Skipið er nýtt, gjöf frá Skúla hertoga Bárðarsyni,
auk fimmtán stórgjafa sem Sturla upplýsir ekki nánar um.2 Kannski
hefur þó sú tylft skjalda sem Snorri og förunautar hafa þegar þeir
koma í Skálaholt, verið hluti gjafanna.3
Skáld höfðingja
Hér er ástæða til að staldra við. Áður en Snorri fer utan árið 1218
hefur hann ort lofkvæði, að því er bækur herma, um Sverri konung
Sigurðarson4 (d. 1202), Inga konung Bárðarson, Hákon jarl galin
Fólkviðarson (d.1214) og Kristínu ekkju hans, sem nú var gift Ás keli
(Eskil) lögmanni, bróður Birgis jarls, þess sem talinn er faðir Stokk -
hólms og stundum kallaður hafa stofnað sænska ríkið. Hákon galinn,
sem greinlega hafði mætur á höfðingjaskáldinu Snorra, hafði pantað
kvæði um konu sína, en lést þegar Snorri ætlaði að heimsækja þau
hjón árið 1214. Varð ekkert af utanför þá, en nú hafði Snorri fært
1 Þessi síðbúna sigling dugir reyndar líka ágætlega til skýringar á að lofkvæðið um
Skúla hefur borist á undan skáldinu heim til Íslands.
2 Um öll þau efni sem hér er fjallað um er raunar aðeins ein heimild, Íslendinga saga
Sturlu Þórðarsonar. Þótt Sturlu liggi ekki alltaf gott orð til frænda síns er engin
ástæða til að væna hann um meiri háttar rangfærslur.
3 Sturlunga saga 1988:264.
4 Eina heimild um þetta eru afritin af Skáldatali úr Kringlu. Skáldatal í DG 11 4to
getur ekki um Snorra sem skáld Sverris.