Són - 01.01.2010, Page 26
HEIMIR PÁLSSON26
Kristínu kvæðið Andvöku til Gautlands „og tók hún sæmilega við
Snorra og veitti honum margar gjafir sæmilegar. Hún gaf honum
merki það er átt hafði Eiríkur Svíakonungur Knútsson.5 Það hafði
hann þá er hann felldi Sörkvi konung á Gestilsreyni.“6 Auk þessara
kvæða hafði Snorri ort eitt lofkvæði um Hákon, hinn unga Noregs -
konung, og tvö um verðandi tengdaföður hans, Skúla jarl Bárðar -
son.7 Svo merkilegt sem það er, hefur ekkert varðveist af þessum
kvæðum nema það eina klofastef sem hér ræðir á eftir. Er það þeim
mun sérkennilegra sem einhver þeirra hafa áreiðanlega verið ort á
bókfell og send úr landi. Mætti þá vænta að einhver drög hefðu orðið
eftir á Íslandi. Kvæðin um Skúla og Hákon hafa vísast aldrei komið
til Íslands í heilu líki. Hins vegar sýnir frásögn Sturlungu að einhverjir
hlutar lofkvæðis um Skúla hafa borist til Íslands á undan skáldi sínu.
Það þarf ekki að koma á óvart að skáldið, sem síðar stærði sig af
að hafa notað 100 bragarhætti á Háttatal, skyldi velja bragþraut á eitt
af kvæðum sínum, nefnilega annað lofkvæðið um Skúla, þar sem var
drápa með klofastefi. En klofastef eru með þeim ósköpum ger að vera
t.d. þrjár braglínur sem ekki stuðla saman og binda þess vegna
ljóðstafi þriggja annarra. Klofastefið á hins vegar að hafa sjálfstætt og
samhangandi efni. Svo er um klofastefið í Skúlakvæði:
Harðmúlaðr var Skúli
rambliks framast miklu
gnaphjarls skapaðr jarla.
Blasir við að fyrsta lína krefst stuðla á h, næsta á r og hin þriðja g. Eru
þá ekki margir kostir lausir!
Reyndar er klofastefið merkilegt um fleira. Snorri vill gera vel við
vin sinn Skúla og kannast áreiðanlega við fleiri höfðingjakvæði þar
5 Eiríkur helgi var afi Kristínar og Eiríks Knútssonar.
6 Það má þykja dálítið sérkennilegt að Sturla er hér eini heimildaramaður um að
Eiríkur Knútsson hafi verið foringi annars liðsins við Gestilren. Hins vegar er ekki
ljóst hvaðan hann getur haft nöfnin og staðarheitið nema frá Snorra frænda sínum,
sem vissulega heimsótti dótturdóttur Eiríks helga og systkinabarn við Eirík
Knútsson! – Um orustuna við Gestilren er margt á huldu og þá m.a. um staðinn.
– Snorri heimsótti Kristínu og Áskel á Gautlandi. Engin leið er að vita hvar þau
bjuggu og sú sögn að það hljóti að hafa verið í Skörum (Skara) verður því miður
ekki rökstudd (sjá Óskar Guðmundsson 2009:172).
7 Ég hef enga trú á þeirri hugmynd sem Óskar Guðmundsson (2009:66 o.á.)
endurvekur í ævisögu Snorra, að hann hafi kornungur ort Noregskonungatal til
heiðurs fóstra sínum í Odda.