Són - 01.01.2010, Page 49
MIRSA-VITRAN 49
Með ómagahópinn við brjóst þitt og bak
þú barðist með hugrekki glöðu,
og undarlegt var það, hve upprétt þú stóðst
í einyrkja búkonu stöðu.
Hann minnist á Ármanns rímur þeirra systra en leggur mesta áherslu á
að menntunarþrá ömmu sinnar hafi beinst að alheims áform inu og
framtíðarlandinu:
Í hillingalandinu handan við gröf
var hugur þinn jafnan í förum,
og skáldmælta sálin þín barnshuga-bljúg
með bænrækni og mannást á vörum.
Í því ljósi má skoða rímur Hólmfríðar um Mirsa-vitran.
Rímurnar eru þrjár, varðveittar í tveimur handritum, sem bæði má
rekja til niðja Hólmfríðar. Annað handritið skrifaði Halldór Friðjóns -
son (1882–1959), sonarsonur hennar, í kompu sína (HF). Hitt er
komið úr fórum Indriða Þórkelssonar (1869–1943), innbundið með
sálmauppskriftum (IÞ). Kristín Friðlaugsdóttir (1875–1955), kona
Indriða, var sonardóttir Hólmfríðar. Óvíst er hverjir hafi skrifað þetta
handrit en a.m.k. þrjár hendur virðast á því. Ekki er vitað um sögu
handritanna tveggja að öðru leyti eða samband þeirra. En líklega eiga
þau rætur að rekja til sama forrits. Það vantar t.d. í mansöng fyrstu
rímu á sama stað í báðum handritum, eina vísu eða fleiri. Texti rímn -
anna er að mestum hluta eins í þeim báðum nema þar sem mislesið
hefur verið í öðru hvoru á nokkrum stöðum. Geta þau því bætt hvort
annað upp. Mansöngur annarrar rímu er þó sex vísum lengri í IÞ.
Rímurnar eru því alls 178 erindi í HF en 184 erindi í IÞ.
Eins og kemur fram í erindunum sem vitnað var til að framan
segist Hólmfríður einkum yrkja sér sjálfri til hugarhægðar. Í 75.
erindi þriðju rímu er þó sagt að Þorgerður Markúsdóttir hafi beðið
um rímurnar. Líklegt er að þetta sé Þorgerður sú sem var húskona í
Hafralækjargerði um það leyti sem rímurnar voru ortar en í 72.
erindi segir að það hafi verið árið 1861 (á titilsíðu HF er sagt 1860).
Eiginmaður Þorgerðar, Þorsteinn Þorsteinsson, lést á Hafralæk 1862
öreigi.9 Óvíst er hvers vegna Þorgerðar er getið sem rímnabeiðanda
9 Sjá Konráð Vilhjálmsson.