Són - 01.01.2010, Page 51
MIRSA-VITRAN 51
En þótt textinn, sem Hólmfríður Indriðadóttir að öllum líkindum
lagði út af, geti hafa verið undir áhrifum frá hugun Addisons er það
samt ekki hún sem skáldkonan fer eftir þótt efnið stefni að því sama
– lýsa gæsku og syndum mannanna hér á jörð og framtíðarlandinu
annars heims. Í leiðslu Addisons liggur leið mannanna yfir mikla brú
sem margir falla af á leið til hamingjulandanna þar sem hinir hólpnu
gista. Í rímum Hólmfríðar er ekki minnst á þessa brú heldur er Mirsa
fylgt í draumi frá Efratfljóti yfir vötn, um dali og upp í fjöllin að miklu
musteri þar sem honum eru leidd fyrir sjónir ill- og góðverk mann -
anna, snauðra og ríkra, og sannleikurinn um sælureit hinna hólpnu:
Flöt eg þá mjög fagra sá,
fögur ná þar blómin gróa,
tré mjög há og hunang á,
hvurt nam stráið ilma og glóa.
Þrátt fyrir talsverða leit og eftirgrennslan erum við litlu nær hvað -
an kerlingu á útnára í Þingeyjarþingi barst frásögnin úr gósenlöndum
Vestur-Asíu. Efnisval hennar sýnir þó að ýmislegt rak á fjörur hennar.
Þrátt fyrir aldur ýtir hún Kjalars knerri úr nausti með kímnisglampa
í augum og sanna trú í hjarta. Ekki fyrr en búið er að grafa upp text -
ann sem Hólmfríður snéri í ljóð verður fullvitað hver árangur erfiðis
hennar varð.
Hér á eftir fylgja rímur Hólmfríðar Indriðadóttur um Mirsa-vitran.
Farið er að mestu eftir handriti Halldórs Friðjónssonar (HF) en þó er
textinn leiðréttur á stöku stað með hliðsjón af IÞ, þar sem um aug -
ljósan mislestur eða pennaglöp er að ræða, án þess að það sé tekið
sérstaklega fram. Vísurnar sex, sem IÞ hefur umfram í mansöng ann -
arrar rímu, eru teknar með og birtar innan hornklofa.
HEIMILDIR
FRUMHEIMILDIR:
Hólmfríður Indriðadóttir. Mirsa-vitran. Hdr. Halldórs Friðjónssonar, í
einkaeign.
Hólmfríður Indriðadóttir. Mirsa-vitran. Hdr. úr eigu Indriða Þórkelssonar,
í einkaeign.
AÐRAR HEIMILDIR:
Erlingur Friðjónsson. 1959. Fyrir aldamót. Menningar- og fræðslusam-
band alþýðu, Reykjavík.