Són - 01.01.2010, Page 80
ÞÓRÐUR HELGASON80
því fyrir sér af hverju Jónas velur sér háttinn sem Schiller beitti til að
láta Theklu útmála harm sinn. Það er þó augljóst að bæði ljóðin lýsa
djúpum tilfinningum, miklum harmi og tengjast bæði örlögum kvenna.
„Móðurást“ Jónasar er alls átta erindi. Lokalínur ríma tvær og tvær
eins og hjá Schiller. Jónas lætur forliðina standa eftir atvikum, þeir eru
raun ar fáir, en þríliðakveðunum heldur Jónas til loka – nema á einum
stað „svo ótt og ótt“ og undirstrikar þar með frávikinu örvæntinguna
– eins og hann gerir einnig í Meyjargráti með sama hætti „svo ótt, svo
ótt“ er hann þýðir Schiller: „mit Macht, mit Macht“. Hér birt ast fyrstu
tvö erindi Jónasar:17
Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
í fjallinu dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;
auganu hverfur um heldimma nótt
vegur á klakanum kalda.
Hvur er hin grátna sem gengur um hjarn,
götunnar leitar, en sofandi barn
hylur í faðmi og frostinu ver,
fögur í tárum, en mátturinn þverr –
hún orkar ei áfram að halda.
Jón Thoroddsen
Undir hætti Schillers, og vafalaust fyrir áhrif Jónasar, yrkir Jón
Thoroddsen þrjú ljóð, „Úlfar“, „Til Þuríðar Sveinbjarnardóttur“ og
„Helga Ragnhildur“.
Ljóðið „Úlfar“ er fjarska langt, 16 erindi, og greinir frá smáfugli
sem villist frá landi sínu og flögrar örmagna yfir sollnum sæ en bjarg -
ast um borð í skip sem siglir með farm sinn milli landa – og sest á
„sigluás“ en lendir þar í klóm sjómannsins Úlfars sem sér í fuglinum
gómsætan málsverð. Fuglinn deyr en sál hans bjargast – en hann, eða
máttarvöldin, hefnir sín grimmilega á skipverjum með gjörningaveðri
og í því ferst skipið með manni og mús – utan Úlfari sem kemst í land
en hittir þar fyrir mannætur sem í Úlfari sjá nú ljúffengan málsverð.
Lýkur þar ævi hins miskunnarlausa manns er hann hlýtur sömu örlög
og fuglinn, að verða étinn.
17 Jónas Hallgrímsson (1989a:75–76).