Són - 01.01.2010, Page 98
JÓN B. GUÐLAUGSSON OG KRISTJÁN EIRÍKSSON98
Sigmundur Long (1841–1924) lýsir svo Hans Wium sýslumanni –
langafa Gísla – í sagnaþáttum sínum að hann hafi verið „stór vexti og
mikilmenni að burðum, hvatur, óvílsamur, allra manna orðfærastur
og höfðingi í lund.“6 Hins vegar fer ekki miklum sögum af búfærni
Gísla. Getum við, síðari alda Íslendingar, mæta vel skilið að ekki hafi
öllum búleiknin verið til lista lögð en fyrr á öldum þótti hún nánast
hið eina sem bjargvænlegt var mönnum til lifibrauðs og þeir litnir
horn auga sem ekki tömdu sér hagfræði sauðkindarinnar. Má því vera
að Gísli hafi átt sjálfur skilda þá lýsingu er hann setti svo fram þá er
búslag Everts afa hans bar á góma7:
Embætti sér aldrei kaus
eða heppni stóra.
Oftast var hann iðjulaus
eins og kengilóra.
Fæðingu Gísla Wiums bar upp á 30. janúar 1824. Foreldrar hans,
Álfheiður Einarsdóttir og Gísli Evertsson, voru þá búsett á Þórodds -
stað í Köldukinn þar sem faðir hans var aðstoðarprestur en ekki skal
hér fullyrt hvort sá reitur varð fæðingarstaður Gísla yngra. Eina syst -
ur átti hann er Guðrún hét. Er drengurinn komst á þroskaár tók hann
að nema beykisiðn, fyrst hjá Þorsteini á Skipalóni en síðar í Reykja -
vík. Einnig lærði Gísli sund nyrðra og var það ekki algeng stúdía þá.
Sigmundur Long segir frá því að félagi Gísla við sundnámið hafi
heitið Þórður Gíslason frá Dalhúsum og Breiðavaði eystra og að
Þórður þessi hafi verið „röskleikamaður“. Einn kalsamorgun hafi pilt -
unum ekki þótt kleift að fá sér sundsprett sökum kulda en Þórður lýst
slíkt kveifarskap og sagst skyldu fara, hvað sem aðrir gerðu. Mun þá
Gísli hafa kveðið þetta8:
Þórður í ána þorði,
því hann bar huga frían.
Geitur það litið gátu,
sem gægðust að hans frægðum.
Kenndur að kappi á sundi
kallar hann á oss alla.
6 Sigmundur M. Long: Að vestan, bls. 75.
7 Sigmundur M. Long: Að vestan, bls. 76.
8 Sigmundur M. Long: Að vestan, bls. 79.