Són - 01.01.2010, Qupperneq 141
UM FORMGILDI OG TÁKNGILDI ÍSLENSKRA LJÓÐSTAFA 141
þátta í kveðskapartextanum. Þannig hefur breski málfræðingurinn
Nigel Fabb haldið því fram að textar geti búið yfir tvenns konar form -
um, sem hann kallar annars vegar innbyggt form (inherent form) og
hins vegar tjáð form (communicated form). Hin innbyggðu form eru
sjálf málformin, orðin og stofnhlutarnir (með sinn hljóm og merk -
ingu) sem textinn byggist á, en á hinn bóginn eru einnig oft til staðar
formeiningar, sem segja okkur til um einkenni textans sjálfs. Textinn
veitir þá með einhverjum hætti upplýsingar um sjálfan sig.9
Um leið og það verður skylda samkvæmt þeim bragreglum sem
textinn fylgir að hafa ljóðstafi á tilteknum stað, þýðir það að sá texti
sem fylgir reglunum „kemur því til skila“ um sjálfan sig að hann sé
kveðskapur, en ekki lausamál. Þannig „tjáir textinn sig sjálfur“ um
eðli sitt, ef svo má segja, um það hverrar gerðar hann er, og við-
takandinn sem þekkir formin áttar sig á því hvað klukkan slær. Segja
má, í þeim anda að í fagurbókmenntunum sé lögð megináhersla á það
„hvernig“ hlutir eru sagðir og textinn dragi athygli að sjálfum sér og
formi sínu, að þetta sé í samræmi við hugmynd Romans Jakobsons
um hið skáldlega gildi (póetísku fúnksjón) skilaboðanna. Um leið eru
ljóðstafirnir eins konar greinarmerki, auk þess sem þeir hafa að
minnsta kosti óbein tengsl við hrynjandi og bragstyrk. (Raunar er
það, eins og síðar mun vikið að, eitt af álitamálum í umræðu um
ljóðstafi, hversu náin tengsl þeirra eru við hrynjandi kveðskaparins.
Jón Helgason taldi að stuðlar þyrftu að bera sterka áherslu, en Helgi
Hálfdanarson er á annarri skoðun eins og vikið er að hér á eftir.)
III Ljóðstafir í miðaldamálfræði
Þegar í hinum fornu málfræðiritgerðum kemur fram mat á hlutverki
stuðlanna sem er í samræmi við það sem hér var sagt. Þannig segir
Ólafur hvítaskáld í málskrúðsfræði sinni að stuðlar séu „… upphaf til
kveðandi þeirar er saman helldr norrænum kveðskap, svá sem naglar
halda skipi saman...“10 Samkvæmt þessum skilningi binda ljóðstafirnir
9 Sjá Nigel Fabb (1999) og Kristján Árnason (2007a). Samkvæmt Fabb gefa allir text -
ar frá sér einhvers konar merki um það hvers eðlis þeir eru eða hvaða formi þeir
fylgja. Þetta form kallar hann á ensku communicated form, og gildir það bæði um
bundið mál og óbundið. Meðal tjáðra formþátta ritaðara texta geta verið greinar -
skil og kaflamerkingar, en einnig stundum greinarmerki (kommur og punktar),
sem aftur geta samsvarað ákveðnum þáttum í tónfalli talaðs máls. Ljóðstafasetning
og rím eru hlutar af þessu tjáða formi kveðskaparins.
10 Ólafur Þórðarson (1927:70).