Són - 01.01.2010, Side 147
UM FORMGILDI OG TÁKNGILDI ÍSLENSKRA LJÓÐSTAFAR 147
að vera náttúrulögmál, að ljóðstafir séu notaðir í íslenskum kveðskap,
hvað þá kveðskap almennt.21
Meginreglan sem varð ofan á var að ljóðstafirnir yrðu notaðir í
öllum „æðri“ íslenskum kveðskap. Og á öllum tímum gilda að breyttu
breytanda hliðstæðar reglur um notkun þeirra, t.d. um jafngildisflokka
(hvað stuðlar við hvað) og það að bundin séu saman braglínupör,
stuðlar séu (jafnan) tveir í forlínu og einn höfuðstafur í upphafi síðlínu.
Þótt tiltölulega litlar breytingar hafi orðið í tímans rás á íslenskum
grunnreglum um ljóðstafasetningu, má lesa ýmislegt fróðlegt út úr því
yfirliti sem rannsókn Ragnars Inga Aðalsteinssonar gefur okkur.
Þannig má sjá að mis-mikill strangleiki ríkti á ólíkum tímum. Svo
virðist til dæmis sem meiri lausung hafi ríkt á fjórtándu og fimmtándu
öld og fyrri hluta þeirrar sextándu en bæði fyrr og síðar, sem meðal
annars kom fram í því að þá var ofstuðlun tiltölulega algeng.22 Að
einhverju leyti kann þetta að tengjast því að lengri braglínur komu
fram með nýjum háttum eins og hrynhendu. Einnig er hugsanlegt að
tengja þetta við almennari menningarþróun og „lausung“, enda eru
þetta þeir tímar þegar óstuðlaður kveðskapur eins og sagnadansar eru
upp á sitt besta.
Sú menningarsaga sem þarna liggur að baki þarfnast frekari
rannsóknar, en telja má að einhvers konar endurreisn hafi átt sér stað
í þessum efnum með siðaskiptum, húmanisma og lærdómi. Þannig var
það sem kunnugt er ein af hugsjónum Guðbrands Þorlákssonar að
kristinn kveðskapur fylgdi fornum venjum um ljóðstafi og form. Á
sinn hátt kemur til greina að tengja þetta þeim klassísisma sem tengja
má umbótahugmyndum og málhreinsun sem koma fram í ritum
Arngríms lærða.23
Þegar fram líða stundir taka menn til við fræðilegar rannsóknir á
stuðlasetningu, og má hér nefna rit Jóns Ólafssonar úr Svefneyjum
(1786), en þar mun vera að finna eina fyrstu fræðilega umfjöllun
seinni tíma um norrænan kveðskap.24 Í þessu riti lýsir Jón (sem var
21 En í öðrum löndum hafa ljóðstafir horfið úr kveðskapnun, sbr. t.d. Lilja
(2006:145–285) um sænskan kveðskap og Lie (1967:108–112) um norskan.
Í enskum kveðskap voru ljóðstafir nokkuð lífseigir og tíðkuðust fram á 14. öld,
en voru þó lagðir af um síðir, sbr. t.d. Minkova (2003:9–21) og Baugh
(1967:232–248).
22 Ragnar Ingi Aðalsteinsson (2010).
23 Sbr. Jakob Benediktsson (1953/1987), Kjartan G. Ottósson (1990) og Gottskálk
Þór Jensson (2003).
24 Jón Ólafsson (1786).