Són - 01.01.2010, Síða 148
KRISTJÁN ÁRNASON148
25 Sbr. Ragnar Inga Aðalsteinsson (2010:44, 165–195).
26 Einar Benediktsson (1916:2).
27 Jón Helgason (1959:30).
28 Í Árnasafni, Jón Helgason (1986:12).
bróðir Eggerts Ólafssonar) býsna vel þeim reglum sem giltu í eldri
kveðskap um ljóðstafasetningu, og leikur grunur á að þessi lærdómur
kunni að hafa haft áhrif á ýmis skáld á seinni öldum. Í þeim anda
gerir Ragnar Ingi Aðalsteinsson greinarmun á því sem hann kallar
„lærða stuðlun“ og eðlilega stuðlun samkvæmt brageyranu, sem
nánar verður fjallað um hér á eftir. Þessi lærða stuðlun var meðal
annars fólgin í því að einstök skáld tóku upp á því að nota svokallaða
„s-stuðlun“ í kveðskap sínum, þ. e. að láta /s/ stuðla við sjálft sig, jafn-
vel þótt hljómendur eins og /l/, /n/ og /m/ fylgdu á eftir. En hljóð -
kerfislegar forsendur þessarar stuðlunar höfðu brostið með tilkomu
sníkjuhljóðs í klösum eins og /sl/ og /sn/ á 14. eða 15. öld.25 Ástæða er
til að benda hér sérstaklega á að þegar svo er komið að menn eru
farnir að endurvekja gamlar reglur, sem ekki geta talist eðlilegar
miðað við málstigið þegar ort er, er ljóst að ljóðstafasetningin hefur
breytt um gildi. Hún virðist vera orðin meðvitaðri en hún var áður.
Og stundum er lærdómurinn of mikill, þannig að bera tekur á of -
vöndun.
V Brageyrað og pólitísk helgun ljóðstafanna
Talið hefur verið að Einar skáld Benediktsson hafi búið til orðið
brageyra, þar sem hann segir í grein frá árinu 1916: „Einn gimsteinn,
sem vér einir eigum fram yfir allar heimsþjóðir, er stuðlagáfan, kennd -
in á setning þess ríms sem á útlendu máli er kallað bókstafarím. Ég
leyfi mér að kalla þessa rímvísi þjóðar vorrar brageyra.“26
Oft er litið svo á sem þetta brageyra sé eins og inngróinn hluti af
íslenskri menningarhefð, enda þótt nútíminn sé stundum talinn hafa
spillt þessari tilfinningu, eins og mörgum fornum dyggðum. Í þessum
anda segir Jón Helgason um ljóðstafina í frægri ritgerð,27 að „hjá
hverj um þeim sem fengið hefur brageyra sitt mótað af íslenzkum
kveðskap [sé] stuðlatilfinningin svo rótgróin að hann getur ekki
hugsað sér að yrkja án þeirra ... mér er ekki til neins að reyna [að
yrkja án stuðla], því að ég treysti mér blátt áfram ekki til að heyra
hvort hljómfall íslenskrar vísu er rétt, sé hún óstuðluð.“ Og á öðrum
frægum stað segir hann:28