Són - 01.01.2010, Side 173
Benedikt Hjartarson
Af þrálátum dauða og
upprisum framúrstefnunnar
Ótímabærar hugleiðingar
um hefðarvitund og nýsköpun1
Í marsmánuði árið 2005 tók ég þátt í ráðstefnu sem efnt var til við
háskólann í Gent í Belgíu undir yfirskriftinni „Avant-Garde Now!?“
Upphrópunarmerkið fól í sér ótvíræða áskorun til mælenda, að skyggn -
ast loks eftir birtingarmyndum framúrstefnunnar í menningarlegu
landslagi samtímans. Spurningarmerkið mátti aftur á móti lesa sem
tákn um efa og vísun í þá skoðun að tími framúrstefnunnar sé liðinn.
Sé litið yfir titla og undirtitla nokkurra fræðirita sem birst hafa síðasta
áratuginn eða svo, virðist nærtækt að álykta, að þessi harmi blandna
skoðun sé orðin nokkuð viðtekin: Artists at the End of the Avant-Garde, The
End of the American Avant Garde, Das Ende der Avant garde, Avantgarde nach
ihrem Ende, Requiem pour une avant-garde, Den sidste avantgarde.2
Áherslan á upphöf og endalok, sem er svo áberandi í söguritun um
framúrstefnuna, er vitaskuld ekki einsdæmi innan bókmennta- og
listasögunnar. Víða má greina áherslu á söguleg skil af þessu tagi, sem
ýmist gegnir því hlutverki að afmarka tiltekið tímabil eða upphefja
viðfangsefnið með því að lýsa tilteknum listamanni eða hópi sem
hinum fyrsta eða síðasta í röð margra. Hvort heldur litið er til róman-
tíkur, endurreisnar, natúralisma eða framúrstefnu, er sjaldgæft að rek -
1 Ég vil hér nota tækifærið og þakka Guðna Elíssyni fyrir rækilegan yfirlestur á
greininni.
2 Sjá: Donald B. Kuspit. Idiosyncratic Identities. Artists at the End of the Avant-Garde.
Cambridge, New York: Cambridge University Press, 1996; Stuart D. Hobbs. The
End of the American Avant Garde. New York: New York University Press, 1997;
Katharina Hegewisch. Das Ende der Avantgarde. Kunst als Dienstleistung. Düsseldorf:
Richter, 1995; Marco A. Sorace. Avantgarde nach ihrem Ende. Von der Transformation der
avantgardistischen Kunst des 20. Jahrhunderts. Ein Beitrag zur theolog ischen Kunstkritik.
Freiburg: Karl Alber, 2007; Benoît Duteurtre. Requiem pour une avant-garde. París:
Belles Lettres, 2006; Mikkel Bolt. Den sidste avantgarde. Situa tionistisk Internationale
hinsides kunst og politik. Kaupmannahöfn: Politisk revy, 2004.