Són - 01.01.2010, Qupperneq 176
BENEDIKT HJARTARSON176
við, í sköpun „ímyndaðs rýmis“ sem liggur í framtíðinni og myndar
„andstöðu við samtímann“.4 Hið ótímabæra felst ekki aðeins í því
hvernig framúrstefnan færir í orð þekkingu sem á hvílir einskonar
bannhelgi í samtímanum, líkt og Nietzsche fullyrðir um „ótímabærar
hugleiðingar“ sínar,5 heldur kall ar þetta viðhorf á skilning sem
aðeins er mögulegur í framtíðinni. Framúrstefnan skrifar sig m.ö.o.
á skipulegan hátt inn í framtíð sem hún leitast við að gera að veru -
leika í samtímanum. Að glíma við möguleikann á framúrstefnu í
eigin samtíma felur þannig í sér margbrotnar þverstæður sem grein -
andinn verður að vera sér meðvitaður um. Þetta sjónarmið má vita -
skuld gagnrýna fyrir að ganga út frá tímalegum skilningi á framúr -
stefnu sem kemur fram á þriðja áratug tuttugustu aldar og verður
ekki ríkj andi fyrr en á eftirstríðsárunum. Á hinn bóginn á hinn tíma -
legi skiln ingur á framúrstefnuhugtakinu sér langa hefð og hefur haft
sterk áhrif á notkun þess um margra áratuga skeið, sem ekki verður
komist undan.
Þótt mér hafi tekist að færa rök fyrir því að greining á framúrstefnu
í samtímanum sé í grunninn ótímabært verkefni, hélt spurningin um
stöðu framúrstefnunnar í samtímanum áfram að herja á mig eftir að
umræddu málþingi lauk. Þegar frá leið urðu efasemdir mínar um rétt -
mæti sjónarmiðanna, sem lýst var að framan, æ sterkari. Í þeim felst
ekki aðeins varhugavert yfirlæti sem er í senn valdsmannslegt og
föðurlegt (um þetta var ég raunar vel meðvitaður á þeim tíma sem ég
setti athugasemdirnar fram á) heldur dyljast einnig í þeim fræðileg
óheilindi. Í þeim býr einskonar fjarvistarsönnun fyrir fræðimanninn,
sem getur fullyrt með ágætri samvisku að best sé að láta framúrstefn -
una í samtímanum eiga sig, svo hún megi þroskast og dafna í stað
þess að svipta henni inn í rými hefðar, fræða og sögu. Kannski má líta
á þær rannsóknir á framúrstefnu í listsköpun samtímans, sem ég hef
4 Bernd Hüppauf. „Das Unzeitgemäße der Avantgarden. Die Zeit, Avantgarden und
die Gegenwart“. Der Blick vom Wolkenkratzer. Avantgarde – Avantgardekritik – Avant -
gardeforschung, ritstj. Wolfgang Asholt og Walter Fähnders. Amsterdam, New York:
Rodopi, 2000, s. 547–582, hér s. 554. Allar þýðingar á tilvitnunum í greininni eru
mínar eigin nema annað sé tekið fram (BH).
5 Sjá: Friedrich Nietzsche. „Unzeitgemäße Betrachtungen. Erstes Stück. David
Strauss, der Bekenner und der Schriftsteller“. Kritische Studienausgabe, 1. bindi: Die
Geburt der Tragödie. Unzeitgemäße Betrachtungen I–IV. Nachgelassene Schriften 1870–1873,
ritstj. Giorgio Colli og Mazzino Montinari. München: DTV, 1999, s. 157–242, hér
s. 159–164.