Són - 01.01.2010, Page 186
BENEDIKT HJARTARSON186
30 Sjá: Roland Barthes. „À l’avant-garde de quel théâtre?“ Essais critiques. París: Seuil,
1964, s. 83–86; P. Bürger, Theorie der Avantgarde; H.M. Enzensberger, „Die Aporien
der Avantgarde“; Arnold Gehlen. „Über kulturelle Kristallisation“. Kultur philo -
sophie, ritstj. Ralf Konersmann. Leipzig: Reclam, 1996 [1963], s. 222–242; James S.
Ackerman. „The Demise of the Avant-Garde. Notes on the Sociology of Recent
American Art“. Comparative Studies in Society and History, 2/1969, s. 371–384; Robert
Hughes. „The Decline and Fall of the Avant-Garde“. Idea Art. A Critical Anthology,
ritstj. Gregory Battcock. New York: E.P. Dutton, 1973, s. 184–194.
31 Gehlen. „Über kulturelle Kristallisation“, s. 234.
32 Ackerman, „The Demise of the Avant-Garde“, s. 379.
33 R. Hughes. „The Rise of Andy Warhol.“ Art after Modernism. Rethinking Representa -
tion, ritstj. Brian Wallis. New York: New Museum of Contemporary Art, s. 45–57,
hér s. 53.
Hér er gagnlegt að beina sjónum nánar að samhengi eftirstríðs -
áranna. Sú sátt, sem áður hefur verið nefnt að ríki um dauða eða
endalok framúrstefnunnar, kemur fram með einkar skýrum hætti í
þeim margvíslegu kenningum sem lögðu grunninn að fræðilegri
umræðu um framúrstefnuna á sjöunda og áttunda áratugnum. Í þessu
samhengi nægir að nefna skrif höfunda á borð við Roland Barthes,
Peter Bürger, Hans Magnus Enzensberger, Arnold Gehlen, James S.
Ackerman og Robert Hughes.30 Í grein frá árinu 1963 kemst Gehlen
svo að orði að öll umræða um framúrstefnu eða framvarðarsveitir
[Avantgarde] sé orðin „hlægileg“ og „úrelt“, því „hreyfingin beinist
alls ekki lengur fram á við, heldur er um að ræða viðbætur og upp-
byggingu á staðnum“.31 Á svipaðan hátt bendir Ackerman, í grein frá
1969, á að framúrstefnumenn hafi glatað stöðu sinni sem spámenn
eða „utangarðsmenn“, þeir hafi verið sviptir sjálfsmynd sinni sem
menningarleg „framvarðarsveit“ þar sem menningariðnaðurinn og í
raun fjöldasamfélagið í heild hafi náð að elta framúrstefnuna uppi.32
Hughes gengur jafnvel svo langt, í grein sem birtist rúmum áratug
síðar, að fullyrða að „framúrstefnan sé orðin að slíkri tuggu að orðið
sjálft hafi nú yfir sér pínlega áru“.33 Slíkar yfirlýsingar um endalok
framúrstefnunnar beinast að þeirri hugmyndafræðilegu arfleifð sem
hún er talin standa fyrir. Litið er á framúrstefnuna sem birtingarmynd
hamslausrar framfarahyggju er hafi einkennt hugmyndina um nú -
tímann fram á fyrri hluta tuttugustu aldar eða sem afurð þeirrar al -
ræðis hugsunar er hafi leitt til hörmunga tveggja heimsstyrjalda – eða
jafnvel sem hvort tveggja í senn. Gagnrýni af þessu tagi beinist að
hvers kyns tilraunum til að vinna úr arfleifð framúrstefnunnar og
gera hana að virku afli í nýju menningarlegu samhengi. Fagurfræði
framúrstefnunnar er brennimerkt sem fyrirbæri fortíðar er eigi ekkert
erindi við nýjan tíma.