Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 287
Um biekur
285
Við þessi tíðindi hefur Oddur eygt möguleika til að komast til valda í Eyjafirði.
Það hefur hann ekkert síður munað í en Þorvarð bróður hans nokkrum árum
seinna. Það þurfti ekki mikinn spámann til að sjá það fyrir að Gissuri og
skjólstæðingum Þórðar kakala hlaut að lenda saman enda var þess ekki langt að bíða.
Fyrst með því að Gissur rak Eyjólf Þorsteinsson brott úr Skagafirði og síðan, þegar
Gissur hefur aðeins búið eitt sumar þar, ráðast þeir Eyjólfur og Hrani í hina ægilegu
Flugumýrarbrennu. Sá atburður hefur öðrum fremur styrkt Odd í því að ná
samkomulagi við Gissur gegn þeim Eyfirðingum og síðan ná þar völdum í skjóli
Gissurar að vestan en Finnbjarnar frænda síns að austan. En hafi Oddi sýnst þetta
girnileg leið til frama hefur hann þó fljótlega séð missmíði þar á. Því svo undarlegt
sem það er þá virðist Gissur ekkert sérstaklega ákafur til hefnda eftir þessar miklu
raunir, manni virðist sem Gissur hafi bilast andlega við brennuna. Stundum er hann
afskiptalítill og næstum meinlaus í stórmálum en aftur grimmur og heiftfenginn þar
sem ástæðulítið sýnist vera að beita hörku, alls ólíkur þeim Gissuri sem stöðvaði ofsa
og yfirgang Sturlu Sighvatssonar á sínum tíma, lét drepa „fólgsnarjarlinn" Snorra
Sturluson og hrakti Órækju utan. Sem sagt splundraði ofurveldi Sturlunganna.
Gissur virðist taka Oddi tveim höndum hvað sem hann hefur nú haft í huga með því.
Hann fer fljótlega utan og setur Odd þá yfir Skagafjörð þótt Oddur væri tregur til,
því nú hefur hann áreiðanlega séð ljóð á sínu ráði og líklega fundist að Gissur hefði
hann að forhleypismanni en það var bara of seint. Vafalaust hefur Gissur hvatt Odd
til að beita fullri hörku í öllum samskiptum við þá Eyfirðingana, svo og Heinrek
biskup sem var Gissuri andstæður.
Það eru því engin undur þótt Oddur væri „löngum hljóður“ þegar hann var síðast
heima á Valþjófsstað. Flest virtist þessum unga og glæsilega manni andsnúið. Hann
var settur niður í Skagafirði þar sem óvinir sátu allt í kring, Gissur farinn af landi og
það sem verst var, Þorvarður bróðir hans var meiri vinur Sturlunga og brennumanna
en hans enda tengdur þeim, kvæntur Solveigu Hálfdanardóttur og Steinvarar systur
Þórðar kakala. Meira að segja frændi hans Brandur Jónsson ábóti hafði ekki
fyrirgefið honum dráp Þorsteins mágs síns og vildi ekki tala við hann í brúðkaupinu
í Haukadal. (656) En nú varð ekki aftur snúið. Hann varð að standa sig sem höfðingi
Skagfirðinga hvað sem það kostaði. Gæti hann það svo að Gissuri líkaði var honum
leiðin til metorða greið í skjóli Gissurar þegar hann kæmi aftur heim.
Nú gerir Oddur hverja vitleysuna á fætur annarri. Hann sest að í Geldingaholti og
heggur upp bú Kolfinnu systur Eyjólfs Þorsteinssonar. Hann fer í ránsför til
Þorsteins í Hvammi í Vatnsdal, föður Eyjólfs, og þegar Heinrekur biskup biður hann
að bæta Þorsteini aftur æsist Oddur við og telur þetta sektarfé þar sem Þorsteinn
væri sekur um aðild að Flugumýrarbrennu. Þegar svo biskup bannsyngur Odd fyrir
þetta tekur hann biskup höndum og hefur um tíma í haldi eins og hvern annan
ódæðismann. (657-658)
Eftir að hafa látið biskup lausan ríður hann austur í fjörðu og síðan í Haukadal til
Þóris totts, sem þar fór með ríki ásamt sonum Gissurar, og fær hann með sér norður
aftur. Þangað kominn lætur Oddur uppi þá áætlun að safna liði og fara að þeim
Eyjólfi og Hrafni og drepa þá. En þetta urðu ekki nema ráðagerðir einar því margur
á sér vin meðal óvina, einhver kom þessum áætlunum til þeirra Eyjólfs. Þeir brugðu
hart við, söfnuðu liði, komu að Geldingaholti um nótt og drápu Odd og fleiri menn.
Þar með var lokið lífi þessa manns sem í Islendingasögu Sturlu Þórðarsonar fær
einhverja bestu lýsingu og fegurstu eftirmæli sem Sturla hefur skrifað. (670-671)