Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 301
Richard Lock: Aspects ofTime in Medieval Literature. Garland
publications in comparative literature, Garland publishing, Inc, New York
& London 1985
VIÐAR HREINSSON
Rit þetta er ávöxtur þeirra landvinninga sem orðið hafa á síðari áratugum í
rannsóknum á mun munnlegra bókmennta og ritaðra. Lock tekur mið af þeim mikla
mun sem einkum mannfræðingar hafa greint á milli munnlegrar menningar og
ritmenningar, sem ekki síst felst í mismunandi skilningi og skyni á tíma. Lock gerir í
inngangi allgóða grein fyrir þessu. Tími munnlegrar menningar er nátengdur hringrás
náttúrunnar, ekki sundurgreindur, en byggist frekar á endurtekningum og fastri
hrynjandi. Þegar bókmenning ágerist og um leið skilningur á framrás sögunnar, þá er
tíminn skoðaður hlutlægt sem einangrað fyrirbæri, magn frekar en inntak og gæði,
og ekki eins tengdur náttúru og mannlífi. Þessi andstæða er reyndar nokkuð áberandi
í syndafallshugmyndum nútíma menningargagnrýni.
Það er meginviðfangsefni Locks að rannsaka hvort þessi skilningur á tíma geti
gagnast við greiningu fornra texta. í þeim tilgangi skoðar hann nokkra misgamla mið-
aldatexta, frá tveim sjónarhornum. Hið fyrra er hvernig tíminn líður í sögum, hvort sé
tímatal og hversu rökræn hlutföll milli atburða og frásagnar séu. Hið síðara er at-
burðaröð og tengsl hennar við sjálf mynstur frásagnarinnar, hvort tímamynstrið,
hring- eða línulaga, drottni yfir atburðaröðinni. Þau verk sem Lock tekur fyrir eru
Beowulf, Sir Gawain and the Green Knight, The Shipman’s Tale eftir Chaucer, La
Chanson de Roland, Yvain eftir Chrétien de Troyes, Atlakviða og Gunnlaugs saga
ormstungu.
Það fylgja því alltaf nokkur vandkvæði þegar dregnar eru grófar útlínur
menningarsögu og síðan leitað staðfestingar í einstökum verkum. Heildin er
einfölduð og verkin smækkuð til að fella þau að heildarkenningunni. Þó er betur af
stað farið en heima setið, menn fleyta fræðunum jafnvel eitthvað áleiðis með því að
hakka í sig villur. Verkin sem Lock tekur fyrir eru á ímynduðum þróunarskala sem
nær frá hreinum munnmenntum til hreinna bókverka. Rólandskvæðið er almennt
talið munnlegt, meðan vitað er að Yvain og The Shipman’s Tale eru höfundarverk, en
Beowulf er umdeilt verk. Ef við látum nægja að líta á ystu pólana, þá ber
Rólandskvæðið nánast eintóm munnleg einkenni. Tímatalið er „óraunsætt“, og ekki
er hægt að endurgera það í tíma, því atburðarásin er eingöngu bundin hringrás
dægraskipta. Atburðakeðjan er hliðtengd, þ.e.a.s. atburðir koma ekki í efnislegu
framhaldi hver af öðrum, framvindan er skrykkjótt með endurtekningum. Atlakviða
líkist mjög Rólandskvæðinu. Þau verk sem eru bókleg eru öðruvísi. Tíminn er þar
hlutlægari, hefur skýrt hlutverk og hægt er að endurgera tímatal. Tíminn er línulaga,
tengdur sögulegri vitund og er notaður markvisst til þess að skapa spennu.
Atburðaröð er liðtengd og samfelld og þar með rökvísari.
Lock telur Gunnlaugs sögu ormstungu vera blandaða. Frásagnarstíllinn byggist á
hliðtengingum, en spennan er byggð upp í kringum tímamörk og sagan fjallar um
sögulega atburði. Tilfinning er fyrir línulaga tíma, því höfundur skapar andstæðu við
heiðna fortíð, en þó eru sterk tengsl við hringrás árstíða. Eitt af hinum munnlegu
einkennum er það að höfundur kann ekki að skapa spennu úr stuttum tímaskeiðum.