Skáldskaparmál - 01.01.1992, Qupperneq 302
300
Um bækur
Lock segir að Gunnlaugs saga sé afurð ó-bóklegrar menningar sem noti eitthvert
bókmenntaefni, en Beowulf sé aftur á móti afurð bókmenningar sem noti
munnmælaefni.
Þetta er ögn broslegt og full gróflega einfaldað. Margir sagnaritarar skapa spennu
úr stuttum tímaskeiðum, t.d. í gömlum sögum eins og Gísla sögu, en einnig yngri
sögum eins og Hrafnkels sögu og Njálu. Lock virðist hafa takmarkaðan skilning á
því að sagnaritarar hafi notað mikið munnmælahráefni, en unnið úr því og fjölda
annarra heimilda. Sögurnar eru í grundvallaratriðum bóklegar, enda standa þær á
grunni sagnaritunar sem hafði endurgerð línulegrar sögu að markmiði og ýmsa
stóratburði eins og landnám, Alþingisstofnun og kristnitöku til að miða við. Slíkir
fastir atburðir eru meginforsenda tímatals og línulaga söguskilnings. I því sambandi
er ástæða til að vekja athygli á merkri bók og vanræktri, doktorsritgerð Ólafíu
Einarsdóttur, Studier i kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning, Lund
1964. Ólafía hefur verið skömmuð eitthvað fyrir vinnubrögð og niðurstöður hennar
um kristnitökuártalið eru umdeildar, en greinargerð hennar fyrir tímatalsaðferðum
Islendinga er forvitnileg fyrir þá sem fást við að rannsaka forna sagnagerð.
íslendingar stóðu framarlega í tímatalsfræðum á miðöldum. Ólafía sýnir fram á
tvenns konar tímatal. Annað er afstætt og alþýðlegt, skylt hringlaga tímaskyni, en
hitt er algilt, línulaga tímatal sem tekur mið af ákveðnum atburðum, t.d. hið ríkjandi
kristna tímatal. Sagnaritarar steyptu þessu saman í sögum. Á yfirborðinu er ekkert
altækt tímatal, en þó hafa sagnaritarar innlimað það í sögur sem margar hverjar eru
eins og að höfundur hafi haft almanak við höndina. Það er því ekki rétt að gera mikið
grín að útgefendum íslenskra fornrita, fyrir að hrófla alltaf upp tímatali sagnanna,
sem nú á dögum eru taldar allt of bókmenntalegar til að slíkt skipti máli. Það að hægt
er að endurgera tímatalið, sýnir svo að ekki verður um villst að tímatalsþekking hefur
verið einn af hornsteinum sagnaritunar, sem lengi vel hafði það markmið að skrá og
endurgera sögulega fortíð með öllum tiltækum aðferðum.
Hugmyndir Ólafíu eru afar gagnlegar, þó þær séu 20 árum eldri en bók Locks.
Hann hefur þó nýrra og að mörgu leyti forvitnilegt kenningakerfi að styðjast við. Þó
að hann misskilji íslendingasögurnar eins og að sumum finnst að allir útlendingar
geri, þá eru mörg lykilhugtök hans afar gagnleg, þó ekki séu þau einhlít. Atriði eins
og tími í hring eða línu, tímatal eða ekki, tímanleg nákvæmni og hlutlægni,
tímatengdur söguskilningur og frásagnareinkenni á borð við röklegt samhengi eða
endurtekningar, eru einatt flóknari en svo að þau eigi heima á ákveðnum punktum í
menningarsögulegri þróun. Þau eru háð ýmsu samhengi bókmenntaverka,
bókmenntastigi, tilgangi höfunda o.s.frv. Hringlaga tími er lifandi enn í dag, til dæmis
sem bókmenntalegar brellur í flóknum skáldsögum. Og hvað er meira hringsólandi
en nútíma afþreyingarefni? íslendingasögurnar sýna að þessi atriði geta blandast á
ýmsan hátt, enda er líkast til mikilvægast að gera sér góða grein fyrir samspili
þessara þátta. Það er mikið starf framundan, að nýta þá möguleika sem þessar
hugmyndir gefa, en um leið þarf að útryðja slatta af erroribus.