Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 6
6
ÁSDÍS R. MAGNÚSDÓTTIR OG ÞRÖSTUR HELGASON
stórar skáldsögur – öllu árennilegra viðfangsefni. Hér er ekki byggt á form-
legum könnunum en því hefur verið haldið fram að sagnagerð hafi verið
ráðandi bókmenntaform síðustu áratuga og aðalrannsóknarefni fræðimanna
á sviðinu.10 Það kann að hafa haft áhrif á áherslur í kennslu bókmenntafræða
á háskólastigi og þar af leiðandi á val nemenda á viðfangsefnum. Þetta gæti
hafa leitt til minnkandi kunnáttu í ljóðgreiningu og ef það er raunin – sem
til dæmis ljóðaumfjöllun í fjölmiðlum gæti verið til marks um – myndi það
augljóslega leiða til minnkandi áhuga á ljóðalestri.11
Hugsanlega fer áhuginn á ljóðum þverrandi. Hugsanlega er ljóðið í
hugum margra endurútgefið skólakver sem vekur ljúfsárar minningar um
liðinn tíma. Hugsanlega er einhver sannleiksbroddur í þeirri táknmynd sem
birtist á forsíðu heftisins. En víst er að það skiptir máli hvernig staðið er
að miðlun ljóðlistarinnar. Þetta hefti mun ekki bæta úr brýnni þörf á að
tekið verði saman nýtt rit um aðferðafræði ljóðgreiningar hér á landi en sú
fjölbreytta og fjöruga ljóðaumræða sem það inniheldur mun vonandi verða
fleirum hvatning til þess að leggjast í ljóðalestur og ljóðgreiningu.
Að þessu sinni er ein aðsend grein í heftinu en það er ítarleg úttekt
Hjalta Hugasonar á inntaki og merkingu trúmálabálks þjóðskrárinnar ásamt
breytingartillögum.
Ásdís R. Magnúsdóttir
Þröstur Helgason
10 Sjá Steven Connor, „Postmodernism and literature“, The Cambridge Companion to
Postmodernism, Steven Connor ritst., New York: Cambridge University Press, 2004,
bls. 62–81, hér einkum bls. 62–65.
11 Enski bókmenntafræðingurinn og háskólakennarinn Terry Eagleton segir kveikjuna
að bók sinni, How to Read a Poem, vera þá að varla nokkur nemenda sinna kunni skil
á bókmenntagreiningu (e. literary criticism) af því tagi sem hann sjálfur lærði. Honum
þykir reyndar kunnáttuleysi nemenda ekki aðeins ná til ljóðgreiningar heldur skiln-
ings á ljóðrænum eigindum í hvers konar texta. Sjá Terry Eagleton, How to Read a
Poem, Oxford: Blackwell Publishing, 2007, bls. 1–7. Fjöldi bóka um þetta sama efni
hafa komið út á síðustu árum og margar nefna minnkandi lestur ljóða og dvínandi
þekkingu á ljóðgreiningu. Sjá til dæmis Edward Hirsch, How to Read a Poem, and Fall
in Love with Poetry, New York: Harcourt Brace & co., 1999, bls. xi–xiii.