Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 94
94
HELGA KRESS
Fjölni 1843, en þar eru nýútkomin ljóðmæli Jóns á Bægisá meðal bóka.22 Í
fyrirlestrinum „Yfirlit yfir fuglana á Íslandi“ sem Jónas flutti fyrir landa sína
á fundi Íslendinga í Kaupmannahöfn 7. febrúar 1835 leggur hann áherslu
á hve þrösturinn, sem hann flokkar undir söngfugla, komi snemma vors til
landsins úr langferð sinni að sunnan, og setur fram eins og örsögu – eða
órímað ljóð:
Hann kemur snemma á vorin og ætlar þá að deyja úr kulda; þá er hann
heima við hús og bæi, og þið munið víst eftir hópunum sem stundum
sátu á Bessastaðatúni. Engan okkar grunaði þá að þeir væru nýkomnir úr
langferð lengst sunnan úr löndum.23
Þótt þrösturinn komi snemma vors til landsins er það ekki hann sem boðar
vorið í huga Jónasar, fremur en annarra Íslendinga, heldur lóan. Það er hún
sem kemur fyrst. Hún er einnig fyrsti fuglinn sem Jónas nefnir í fyrirlestrinum
um fuglana á Íslandi og setur fram í spurningu sem innifelur samsömun og
samþykkjandi svar: „Er það nokkur ykkar sem ekki hefur lifnað við þegar þið
heyrðuð til lóunnar og hrossagauksins fyrst á vorin?“24 Þótt lóan sé söngfugl
hentar hún ekki í „Ég bið að heilsa“ þar sem orðræðan krefst fugls sem er
karlkyns eins og ljóðmælandi og getur því verið staðgengill hans.
Ástæða þess að Jónas strikar yfir „grænan dal“ í eiginhandarritinu og setur
„lágan“ í staðinn kynni að vera sú að enn var dalurinn ekki orðinn grænn en
einnig að honum hafi ekki þótt fara vel á því að láta græna litinn koma fyrir
tvisvar með stuttu millibili, þ.e. á dalnum og skúfnum á húfu stúlkunnar. En
svo virðist sem útgefendum hafi ekki líkað græni liturinn á skúfnum, sem
var þó sá algengasti á skúfum, því að í prentuðu gerðinni hefur honum verið
breytt í rauðan og orðið þar að auki gleiðletrað: r a u ð a n. Þessi áréttun
með gleiðletri er alveg út úr stíl við annað í kvæðinu (nema ef vera skyldi við
upphrópunarmerkið á eftir heiti þess í prentuðu gerðinni) og ómögulegt að
túlka öðruvísi en sem skilaboð til prentara eða prófarkalesara um breytingu
frá handriti, áréttingu þess að liturinn eigi að vera rauður jafnvel þótt það sé
22 „Bókafregn“, Fjölnir, 6. ár, 1843, bls. 59–74, hér bls. 73. Um höfunda bókafregn-
ar, sjá fundargerð félagsfundar 29. mars 1843, „Fundabók Fjölnisfélags“, Eimreiðin,
4/1926, bls. 360.
23 Jónas Hallgrímsson, „Yfirlit yfir fuglana á Íslandi“, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar
III (Náttúran og landið), ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi
Egilsson, Reykjavík: Svart á hvítu, 1989, bls. 207–237, hér bls. 215.
24 Sama rit, bls. 207.