Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 102
102
HELGA KRESS
og ekkert sérstakt við það en „kátar“ kindur hefur þeim Konráði fundist „of
kímilegar“, svo að vitnað sé til athugasemda þeirra í bréfinu til Jónasar frá
10. apríl 1844. Af svipuðum ástæðum breyta þeir myndmáli í „Gunnars-
hólma“, þar sem „blikar í laufi birkiþrastasveimur“, sbr. Fjölni 1838, bls.
33, verður „blikar í lofti birkiþrastasveimur“ og skógarmyndin með lauf-
inu sem hluta fyrir heild (pars pro toto) strikuð út. Með þessari breytingu
úr laufi í loft var svo kvæðið prentað í næstu útgáfum á ljóðum Jónasar.47 Í
skýringum aftanmáls við prentun kvæðisins í heildarútgáfunni, 1. bindi frá
1929, gerir Matthías Þórðarson grein fyrir breytingunni þar sem hann telur
„líklegt“ að orðinu „hafi verið breytt af Jónasi sjálfum eftir að kvæðið var
prentað í Fjölni, og að þeim Brynjólfi og Konráði hafi verið kunnugt um
það, er þeir gáfu kvæðið út í 1. útg.“48 Frá þessu víkur Sigurður Nordal við
prentun kvæðisins í Íslenskri lestrarbók 1750–1930 frá 1942 þar sem hann
velur lesháttinn „blikar í laufi“ eftir fyrstu prentun kvæðisins í Fjölni fyrir
„blikar í lofti“ sem hafi staðið í öllum síðari útgáfum og hann segist vera
„hræddur um“ að sé „‘leiðrétting’ Konráðs Gíslasonar“.49
Það kemur víða fram að þeir Brynjólfur og Konráð áttu erfitt með að
skilja skáldskaparmál og furðuðu sig því oft á skáldskap Jónasar sem þeim
47 Sbr. Rit Jónasar Hallgrímssonar I (Ljóðmæli), Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson hafa
séð um útgáfuna, Reykjavík: Jóh. Jóhannesson, 1913, bls. 70, og Ljóðmæli og önnur
rit eftir Jónas Hallgrímsson, ritnefnd Björn Jensson, Hannes Hafsteinn (svo!), Jón
Sveinsson, Konráð Gíslason og Sigurður Jónasson, Kaupmannahöfn: Hið íslenzka
bókmenntafjelag, 1883, bls. 53.
48 Rit eftir Jónas Hallgrímsson I (Ljóðmæli, smásögur og fleira), bls. 335, sbr. einnig kvæð-
ið sjálft á bls. 51. Það kemur á óvart að Matthías, sem var að öðru leyti gagnrýninn
á þá Brynjólf og Konráð, skuli trúa þeim hér. Það gerir hann ekki hvað varðar „Ég
bið að heilsa“ sem hann í trássi við þá setur upp eins og í eiginhandarritinu, með síð-
asta erindinu óskiptu. Rit eftir Jónas Hallgrímsson I (Ljóðmæli, smásögur og fleira),
bls. 133, sbr. einnig fræðilegar skýringar hans og sannfærandi rök á bls. 376. Eftir
þessari uppsetningu kvæðisins fer Sigurður Nordal í Íslenskri lestrarbók frá 1942 nema
hann bætir enn um betur og hefur punkt á eftir „í peysu“, þannig að síðasta línan,
niðurstaða kvæðisins fær meira vægi sem sjálfstæð málsgrein. Íslenzk lestrarbók 1750–
1930, Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, 1942, bls. 70.
49 Sigurður Nordal, „Formáli“, Íslenzk lestrarbók 1750–1930, bls. 5–8, hér bls. 7.
Myndmálið útskýrir hann með því að Jónas hafi „hugsað sér skógana svo hávaxna,
að þrestirnir væru á sveimi meðal laufkróna trjánna“. Í grein um „Gunnarshólma“
tekur Hannes Pétursson undir þessa skýringu og telur „eldri gerðina“ fegurri og „í
fullu samræmi merkingarlega við það sem næst kemur“. Hannes Pétursson, „Atriði
viðvíkjandi Gunnarshólma“, Kvæðafylgsni. Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson,
Reykjavík: Iðunn, 1979, bls. 46–73, hér bls. 63.