Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 23
23
GEST BER AÐ GARÐI
Við samanburð frumtexta og þýðingar skiptir miklu hvernig við metum
hverja ljóðlínu, einkenni hennar og gildi. Í flestum tilvikum skiptist hin langa
ljóðlína Poes í tvennt, með braghvíld á milli línuhelminga, svo sem víða má
sjá dæmi um í braghefðum: „And each separate dying ember / wrought its
ghost upon the floor.“ Þó er þetta ekki einhlítt, eins og sjá má í annarri
línu fyrsta erindis, þar sem ekki fer vel á að gera ráð fyrir braghvíld að ráði:
„Over many a quaint and curious volume of forgotten lore –“. Það er því viss
sveigjanleiki í ljóðlínu Poes og þar með í lestri hennar, hvort heldur hún er
lesin með innri rödd eða upphátt. En oftast má lesa ljóðlínur Poes þannig að
samræmist vísuorðum íslensku þýðinganna og tilhögun þeirra þarf þá ekki
að breyta neinu um áherslur í upplestri kvæðisins.
Til að meta vægi hins ytra forms, eða svipmóts, erindanna hjá Poe, má
prófa að skipa ljóðlínum í öðru erindi hinnar íslensku þýðingar Einars að
hætti frumtextans:
Þetta var á Ýlisóttu, aldrei gleymi’ eg þeirri nóttu;
skaust um gólfið skuggi hljótt og skalf í glæðum arinfeyr.
Birtu þráði’ eg; bætur réði bók mín engin döpru geði.
Leónóru, lífs míns gleði, lík til grafar báru þeir.
Hún með englum ljósum lifir, ljúfa nafnið geyma þeir,
nafn, sem menn ei nefna meir.
Það er ef til vill ekki fráleitt að setja kvæðið upp á þennan hátt, þótt óvenjulegt
sé. Hver lína er þá sér um ljóðstafi. Hrynjandin er hin sama og hjá Poe en
hún fær þó aukinn þunga með reglubundnum ljóðstöfum í íslensku þýð-
ingunum, hvernig sem kvæðinu er raðað í línur. Álitamál er hvaða áhrif
umrædd breyting á ytra formi ljóðsins hefur og spyrja mætti hvort hún telj-
ist ekki aukaatriði í samanburði við rímmynstrið, hrynjandina og ljóðstafina.
Reglubundin ljóðstafasetning er hinsvegar íslensk „viðbót“ og fyrir henni er
afar sterk hefð, sem veldur því að flestum þætti einkennilegt að vinna með
háttbundið ljóðform á íslensku án ljóðstafa.
Allvíða í frumkvæði Poes bregður reyndar fyrir því sem virðist vera
skipuleg ljóðstafasetning. Það stílbragð er þó einungis að finna innan
einstakra rímeininga en ekki allra og ekki samkvæmt kerfi vísuorða. Hér
koma nokkur dæmi (öll úr fyrri hluta vísuorða hjá Poe):
Deep into that darkness peering (5. erindi)
In there stepped a stately Raven (7.)