Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 36
36
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
þess einmitt að blanda sér í slíka „samræðu“, rétt eins og hann var í essinu
sínu þegar hann skiptist á skoðunum við aðra um skáldskap, tungumálið og
önnur þjóðþrifamál í blöðum og tímaritum.
Sú spurning vaknar hvort Helga hafi ekki líkað hin nánu kynni við frum-
texta Poes, fundist hugarheimur og tjáningarmáti bandaríska skáldsins
svo fjarri sér að hann hafi kosið að leggja verkið til hliðar. Þetta virðist þó
langsótt skýring þegar litið er til þess að Helgi þýddi mikinn fjölda ljóða af
ýmsum toga og frá ýmsum tímum. Spyrja mætti hvort ástæðan sé sú að Helgi
hafi ekki verið nógu ánægður með þýðingu sína. Í fyrstu virðist sú skýring
langsótt, því að ætla má að þá hefði hann einfaldlega unnið áfram í henni
og betrumbætt hana. Skýringu kann þó að vera að finna í ummælum Helga
um kvæðið í erindi sem hann hélt á ráðstefnu árið 1987 og birtist síðar á
prenti. Þar ræðir Helgi hið „hrollkalda or-hljóð“ sem hann segir hafa „öðl-
azt heimsfrægð fyrir sinn ömurleik vegna hins alkunna kvæðis Edgars Allans
Poe, The Raven“ þar sem skáldið „þaulrímar“ allt kvæðið „á móti viðlaginu
„Nevermore“, sem magnar merkingu sína með sjálfum svip orðsins“. Helgi
segir „augljóst, að þeirri samfylgd merkingar og hljóms, sem setur svip sinn
á kvæðið um hrafninn, verður ekki fram komið á íslenzku. Einar Benedikts-
son fór að líkindum svo nærri því sem komizt verður með viðlaginu „Aldrei
meir“, þó að mun bjartara sé yfir þeim orðum en enska orðinu nevermore,
og þá um leið öllu kvæðinu vegna rímsins. Sjálfur bragarhátturinn er við
það miðaður, að or-hljóðið fái sem bezt að njóta sín fyrir sífellda endurtekn-
ingu; svo einnig formið missir að nokkru leyti marks í þýðingunni.“32 Nánar
verður vikið að þessu atriði síðar á þessum blöðum.
Þótt þýðing Helga birtist í heild á öðrum stað í þessu hefti, er ekki úr
vegi að sýna hér fyrsta erindið, til samanburðar við aðrar gerðir þess hér að
framan:
Dapra nótt, með drunga í æðum,
drúpti’ eg yfir gömlum skræðum,
dulum, gleymdum fyrnskufræðum;
fyllti brjóstið angur margt.
32 Helgi Hálfdanarson, „Ögn um þýðingar. (Flutt á ráðstefnu um vanda íslenzkrar
tungu á vorum dögum, 1987)“, Molduxi. Rabb um kveðskap og fleira, Reykjavík: Mál
og menning, 1998, bls. 133-138, hér bls. 135. Fyrst birt í ráðstefnuritinu Móðurmálið.
Fjórtán erindi um vanda íslenskrar tungu á vorum dögum, Ólafur Halldórsson sá um
útgáfuna, Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga, 1987, bls. 79-84.