Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 169
169
ÞJÓÐKIRKJA OG TRÚFRELSI
getur því ekki átt við inntak allra trúarrita einstakra trúfélaga sem oft hafa
að geyma efni sem er margra alda og jafnvel árþúsunda gamalt og kann að
vera andstætt nútímaviðhorfum líkt og raun er á með ýmsa texta Gamla
testamentisins. Sú takmörkun að ekkert megi fremja sem stríðir gegn sömu
viðmiðum verður að skilja svo að um saknæmt athæfi sé að ræða og það sé
jafnframt þáttur í helgisiðum eða starfi trúfélags eða eigi beinlínis rætur að
rekja til þess. Athæfi einstakra félagsmanna og jafnvel trúarleiðtoga í þessa
veru getur því ekki orðið þess valdandi að settar séu almennar skorður um
starf viðurkennds trúfélags jafnvel þótt þeir telji sig breyta í anda trúarbragða
sinna.64
Trúarlegt félagafrelsi
Líta má á 63. grein sem höfuðákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi. Það
snýr einkum að löggjafanum og takmarkar vald hans með því að gera honum
óheimilt að banna trúfélög og starfsemi þeirra eða synja þeim um skráningu
og þau réttindi sem í skráningu felast burtséð frá inntaki þeirrar trúar sem
þau eru stofnuð um. Þó verður að vera ljóst að um raunverulega trúariðkun
sé að ræða þótt ekki þurfi hún samkvæmt stjórnarskrárgreininni að tengj-
ast viðteknum trúarbrögðum. Til dæmis geta félög sem stofnuð væru til að
iðka djöfladýrkun notið verndar þessa ákvæðis en gátu það tæpast samkvæmt
eldra orðalagi greinarinnar. Greinin nær aftur á móti ekki til lífsskoðunar-
félaga, félaga um andleg mál eða félaga sem stefnt er gegn trúarbrögðum.65
Þá njóta trúfélög aðeins verndar greinarinnar þegar um trúariðkun er að
ræða. Skólahald trúfélaga, sjúkrahúsarekstur eða almenn störf að líknar-
málum njóta aftur á móti ekki sérverndar hennar.
Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er álitamál hvort sú krafa fær staðist
sem sett er fram í 3. grein laga um skráð trúfélög þess efnis að trúfélög er
óska skráningar tengist „þeim trúarbrögðum mannkyns sem eiga sér sögu-
64 Gunnar G. Schram, Stjórnskipun Íslands, bls. 464–465. Henrik Zahle, Menneskerettig-
heter, bls. 144. Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur, bls. 339–341, 410–411.
65 Torvelt er að aðgreina trú og lífsskoðun sé trúarhugtakið ekki notað í þröngri merk-
ingu. Hér er ekki gerð tilraun til slíks en lífsskoðun látin ná yfir viðhorf sem telja má
veraldleg og þeir sem þau aðhyllast líta ekki á sem trú sína. Skilgreina má lífsskoð-
unarfélag þannig: Félag sem er málsvari lífsskoðunar sem er óháð trúarbrögðum og
býður upp á veraldlegar athafnir (nafngjöf, fermingu, giftingu og greftrun). Dæmi
er Siðmennt sem kynnir sig svo: „Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var
stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugs-
unar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.“ Um Siðmennt:
http://sidmennt.is/ [sótt 9. 12. 2010].