Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 151
151
Hjalti Hugason
Þjóðkirkja og trúfrelsi
Inntak og merking trúmálabálks stjórnarskrárinnar
ásamt breytingartillögum
Inngangur
Undanfarið hefur staðið yfir undirbúningur að einstæðri tilraun til að
endurskoða stjórnarskrá okkar niður í kjölinn í framhaldi af þeim samfélags-
legu áföllum sem þjóðin hefur orðið fyrir á næstliðnum árum.1 Þegar svo
stendur á er mikilvægt að huga að öllum þáttum þjóðlífsins og öllum þáttum
stjórnarskrárinnar.
Við upphaf 21. aldar er ljóst að íslenskt samfélag stefnir hraðbyri í átt að
þeirri fjölmenningu sem hvarvetna er ríkjandi í löndunum umhverfis okkar.
Eitt af einkennum fjölmenningarlegs samfélags er að þar gætir fjölþættrar
trúarlegrar starfsemi er nýjar trúhreyfingar ryðja sér til rúms en þær sem
fyrir eru skerpast og skýrast um margt.2 Síðustu ár eða áratugir hafa jafnvel
einkennst af því sem fræðimenn á ýmsum sviðum hafa nefnt „endurkomu
trúarbragða“ í hinum vestræna heimi.3 Einkum einkennir þessi þróun
norðanverða Evrópu sem telja má að hafi verið sekularíseraðasti (veraldleg-
asti eða afhelgaðasti) hluti heims um miðbik 20. aldar. Svo virðist sem skeiði
sekúlaríseringar sé lokið í bili en framundan séu tímar sem muni mótast af
trúarbrögðum í auknum mæli. Þessi þróun hefur kallað fram ýmis álita-
mál sem tengjast frelsi til iðkunar trúar og sannfæringar og mikilvægt er að
1 Lög um stjórnlagaþing 2010 nr. 90 25. júní: http://www.althingi.is/lagas/138b/2010090.
html [sótt 7. 12. 2010].
2 Jakob Ágúst Hjálmarsson, „Til móts við nýja tíma“, Bjarmi: Tímarit um kristna trú,
1/2011, bls. 5–9. Hjalti Hugason, „Trú, ríki, samfélag og þjóð á 21. öldinni“, Bjarmi:
Tímarit um kristna trú, 1/2011, bls. 10–13.
3 Sjá til dæmis Tage Kurtén, „A Remoralized and Resacralized Society — a Late Mod-
ern Challenge to Law and Religion“, Law & Religion in the 21st Century — Nordic Per-
spectives, ritstj. Lisbet Christoffersen o. a., Kaupmannahöfn: Djøf Publishing, 2010,
bls. 165–179, hér bls. 167.
Ritið 2/2011, bls. 151–181