Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 28
28
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
Rím-mynstrið í öllum framangreindum kvæðum er með nokkrum tilbrigðum
en innbyrðis skyldleiki þeirra er augljós. Þau eru öll ólík víxlríminu sem er
algengast í hefðbundnum íslenskum kveðskap. En þarna er að finna, innan
íslenskrar ljóðlistarsögu, braghefð sem geymir ámóta ljóðform og hjá Poe,
nema hvað ljóðlínan í íslensku kvæðunum svarar til línuhelmings hjá Poe,
svo sem áður segir.
Í mikilvægri ritgerð um ljóðform og þýðingar greinir James S Holmes á
milli mismunandi leiða í formrænni miðlun ljóða í þýðingum – að frátaldri
þeirri aðferð að þýða ljóðatexta yfir í prósa (en slíkar þýðingar geta einnig
verið mikilvægar eins og sannast af prósaþýðingu Sveinbjarnar Egilssonar
á Hómerskviðum). Holmes nefnir fyrst þá leið að viðhalda formi frum-
ljóðsins í þýðingu. Annar kostur er að velja ljóðinu form sem hefð er fyrir í
máli þýðingarinnar, hefð sem kann að vera hliðstæð hinni erlendu formhefð
sem frumkvæðið byggir á. Í þriðja lagi nefnir Holmes að nútímaþýðendur
ástundi í vaxandi mæli að móta form þýðingarinnar í samræmi við inntak og
merkingu verksins, og taka þá hvorki mið af formi frumkvæðisins né ráð-
andi hefðum í viðtökumálinu. Fjórða leiðin er að fara enn frjálslegar fram
og þýða í formi sem er óháð bæði formi og inntaki frumtextans; þýðandinn
hefur þá mjög frjálsar hendur í meðferð ljóðsins og stundum getur verið erf-
itt að greina hvort um þýðingu sé að ræða eða ljóð sem fjallar um annað ljóð
eða styðst við það, stundum í eftirlíkingar- eða skopstælingarskyni.20
Íslensku þýðingarnar sjö eru sem fyrr segir allar undir sama bragarhætti,
hvert erindi ellefu línur, þótt rím-mynstrið sé með nokkrum tilbrigðum.
Segja má að þýðendurnir fylgi allir annarri aðferðinni, sem Holmes til-
greinir, og semji sig að þeirri íslensku braghefð sem rædd var hér að framan.
Á hinn bóginn skal ítrekað að þótt svipmót erindanna sé annað en hjá Poe,
samsvarar þetta bragform frumkvæðinu að öðru leyti. Athygli vekur að í
kvæðabálki Karls Ágústs Úlfssonar, „Hrafninn og ég“, sem er skopstæling
og að því leyti nokkuð í ætt við fjórðu aðferðina sem Holmes lýsir, er farin
sama formleiðin og í íslensku þýðingunum (skopstælingin felst ekki síst í
þessari velheppnuðu „endurtekningu“ formtjáningarinnar). Að hinu ólíka
svipmóti frátöldu, leikur Karl Ágúst form Poes eftir í öllum meginatriðum.
Leiðarrím Karls í öllum þremur köflum kvæðisins er „-att“ (glatt, hratt,
20 James S Holmes, „Forms of Verse Translation and the Translation of Verse Form“,
Translated! Papers on Literary Translation and Translation Studies, Amsterdam: Rodopi,
1988, bls. 23-33, hér einkum bls. 25-28. Sjá einnig kaflann „Translation of Verse
Form“ í Translation – Theory and Practice: A Historical Reader, ritstj. Daniel Weissbort
og Ástráður Eysteinsson, Oxford: Oxford University Press, 2006, bls. 460-475.