Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 121
121
NÁTTÚRA HULDU
lagt upp úr formfágun, hljómi og tónlist ljóða.35 Í áðurnefndum inngangi
sínum að ljóðaúrvalinu Stúlku bendir Helga Kress á að þululjóð Huldu
marki „tímamót í íslenskri ljóðagerð“ og skýrir það svo: „Í þulunum leysir
hún upp bæði form og yrkisefni. Þulurnar einkennast af flæði og fantasíu.
Hrynjandi er óregluleg og frjálslega er farið með rím og stuðla.“36 Yelena
Yershova ræðir um þetta sem „milda formbyltingu“37 en telur ekki að Hulda
hafi þessa sláandi nýjung úr þulunum gömlu eins og áður segir, enda þótt
hún noti ýmis eldri stef í þululjóðum sínum.
Slíkar formnýjungar verða ekki skildar frá því hugmyndalega uppbroti
sem birtist í skáldskapnum. Bölsýn og þunglyndisleg heimssýn kallaði á aðra
framsetningu og þetta tvennt er því samofið. Erlendir fræðimenn hafa á síð-
ustu áratugum fjallað talsvert um þátt þunglyndis og sorgar í módernískum
skáldskap. Í bók sinni um módernísk harmljóð (e. modern elegy) heldur Jahan
Ramazani því fram að ólíkt hefðbundnum harmljóðum, sem ætlað var að veita
þunglyndi og sorg í jákvæðan farveg, sé enga huggun að finna í nútímaljóð-
unum. Þar sé dvalið við hið harmræna án þess að veita því lausn eða upp-
hafningu.38 Fleiri fræðimenn hafa ritað um módernismann í ljósi þunglyndis
og sorgar og leggja áherslu á tengsl hins harmræna við endurnýjun forms
og bókmenntagreina.39 Þessar kenningar varpa ljósi á þau einkenni á ljóðum
Huldu sem hér hafa komið fram. Hún dvelur gjarnan við harminn í ljóðum
sínum – ekki síst í hinum nútímalegu þululjóðum – án þess að veita honum í
jákvæðan farveg, t.d. með huggunarorðum sem ætlað er að sefa sorgina eða
láta sem hún verði yfirunnin. Ljóðmælendur Huldu eru hryggir og fella tár, en
þegar ljóðunum lýkur hefur í raun ekkert breyst. Þeir komast hvergi og sorgin
yfirgefur þá ekki þó að þeir telji raunir sínar. Orð ljóðmælanda í „Heyrði ég í
hamrinum“ lýsa þessu vel: „Finn ég hvorki frið né ró, / fjöllum kringdur langt
frá sjó, / hárri luktur hamraþró. / Hef ég aldrei grátið nóg?“40
Harmræn þululjóð Huldu eiga því margt skylt við evrópskan sam-
tímakveðskap og til marks um það má benda á danskt skáld sem orti ekki
35 Sveinn Skorri Höskuldsson, „Draumsins líkn. Hugleiðing um skáldið Wennerbóm
og Kalastaða-Gunnu“, Tímarit Háskóla Íslands, 6. árg., 1993, bls. 47–55.
36 Helga Kress, „Kona og skáld – Inngangur“, bls. 72.
37 Yelena Yershova, „Hinn nýi „gamli“ kveðskapur. Þululjóð 20. aldar og síðmiðaldaþul-
ur“, bls. 130.
38 Jahan Ramazani, Poetry of Mourning. The Modern Elegy from Hardy to Heaney, Chicago:
University of Chicago Press, 1994.
39 Patricia Rae, „Introduction: Modernist Mourning“, Modernism and Mourning, ritstj.
Patricia Rae, Lewisburg: Bucknell University Press, 2007, bls. 13–49; hér bls. 36–38.
40 Hulda, Kvæði, bls. 55.