Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 170
170
HJALTI HUGASON
legar eða menningarlegar rætur“.66 Virðist sú krafa laganna brjóta í bága
við þá rúmu heimild sem stjórnarskráin veitir fólki til að stofna trúfélög þar
sem hún gerir að minnsta kosti formlega séð ráð fyrir inntakslegri könnun á
kenningu og helgisiðum trúfélaga sem stjórnarskráin gerir tæpast ráð fyrir.67
Virðist augljóst að við túlkun stjórnarskrárgreinarinnar megi ekki gera of
strangar kröfur um tengsl við hefðbundin trúarbrögð með sögulegar og
menningarlegar rætur. Nefnd sú sem er danska kirkjumálaráðuneytinu til
ráðgjafar um skráningu trúfélaga lítur til dæmis svo á að trúarbrögð feli í sér
skilgreinda trú á að manneskjan sé háð afli sem sé bæði henni og náttúrunni
æðra og að sú trú hafi afleiðingar í för með sér fyrir siðferðilega breytni.
Trúfélög eru þá félög sem stofnuð eru til að ástunda og boða slíka trú.68
Skilgreining af þessu tagi rúmar að sönnu ekki lífsskoðunarfélög sem þó
hafa um margt svipaða stöðu og trúfélög í samfélögum sem líta má á sem
veraldleg (sekúlaríseruð). Stjórnarskráin áskilur slíkum félögum engan rétt
umfram þann sem felst í almennu félagafrelsi. Þau hafa því veikari stöðu en
trúfélög. Stjórnarskráin kemur þó ekki í veg fyrir að þeim sé veittur þessi
réttur með lögum.69
Ákvæði 63. greinar stjórnarskrárinnar um rétt fólks til að stofna trúfélög
tryggir þeim meiri rétt en öðrum félögum sem starfa í landinu og fjallað er
um í 74. grein stjórnarskrárinnar. Ákvæði þeirrar greinar eiga þó einnig við
um trúfélög. Stjórnvöld geta því ekki bannað trúfélög af þeim sökum að
innan þeirra sé eitthvað þar kennt eða framið sem talið er gagnstætt góðu
siðferði eða allsherjarreglu nema dómur hafi fallið um að brot hafi verið
framið gegn almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Eftir slíkan
dóm mætti banna starfsemi trúfélags með lögum. Á sama hátt eru hendur
framkvæmdavaldsins bundnar gagnvart trúfélögum og getur það aðeins sett
starfi trúfélaga tímabundnar skorður vegna meintra brota.70
66 Lög um skráð trúfélög 1999 nr. 108 28. desember: http://www.althingi.is/
lagas/136a/1999108.html [sótt 17. 12. 2010]. Björg Thorarensen lítur svo á að 3. gr.
laga um skráð trúfélög hvíli á þeim skilningi á hugtakinu trúfrelsi er fram kemur í
63. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er ekki talið augljóst að svo sé. Þvert á móti virðist
augljóst að lagagreinin þrengir ákvæði stjskr. Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur,
bls. 331–333.
67 Alþingistíðindi, 1/1999–2000, bls. 670, 681, 682. Í Danmörku er litið svo á að slík
könnun sé óheimil. Henrik Zahle, Menneskerettigheter, bls. 144.
68 Hans Gammeltoft-Hansen, „§ 69“, Danmarks Rige Grundlov med kommentarer,
2006, bls. 421–424, hér bls. 421, 423.
69 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur, bls. 331.
70 Gunnar G. Schram, Stjórnskipun Íslands, bls. 463–465, 590, 594. Gunnar G. Schram