Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 195
195
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
halda að það hafi getið þær af sér. En tungumálið er eftir sem áður hugtaka-
miðill, það sem kemur á því sambandi við hið almenna og samfélagið, sem
óhjákvæmilegt er. Af þeim sökum eru æðstu sköpunarverk ljóðlistarinnar
þau, þar sem hugveran ómar í tungumálinu, án nokkurra leifa efnisleikans,
allt þar til tungumálið sjálft kveður við. Sjálfsgleymska hugverunnar, sem
gefur sig tungumálinu á vald sem einhverju hlutlægu, og hið milliliðalausa
og sjálfsprottna í tjáningu hennar eru eitt og hið sama: þannig miðlar tungu-
málið innsta kjarna ljóðlistarinnar og samfélagsins. Það er ástæða þess að hin
samfélagslega taug ljóðlistarinnar er römmust þar sem hún sammælist ekki
samfélaginu, þar sem hún miðlar engu, heldur þar sem hugveran, sem tekst
að tjá sig, tekur afstöðu með tungumálinu og stefnir í sömu átt.
Ekki má þó heldur gera tungumálið algjörlega að rödd verunnar and-
spænis hugveru ljóðsins, eins og mörgum verufræðilegum kenningum um
tungumálið, sem nú eru vinsælar, þætti við hæfi. Hugveran, en tjáning
hennar er nauðsynleg gagnvart einberri merkingu hins hlutlæga inntaks svo
að ná megi fyrrnefndu sviði hlutverunnar í tungumálinu, er ekki viðbót við
inntak þessa sviðs, ekki eitthvað sem kemur utan að. Andartak sjálfsgleymsk-
unnar, þegar hugveran leitar skjóls í tungumálinu, er ekki fórn hennar til
handa verunni. Þetta er ekki andartak ofbeldis, ekki heldur ofbeldis gegn
hugverunni, heldur andartak sáttar: tungumálið sjálft lætur ekki í sér kveða
fyrr en það ómar ekki lengur sem eitthvað framandi hugverunni, heldur
sem hennar eigin rödd. Þegar sjálfið gleymir sér í tungumálinu er það um
leið algjörlega til staðar, öðrum kosti gæfi tungumálið sig hlutgervingunni
á vald sem innantóm orðkynngi, eins og í tungumáli boðskiptanna. En
þetta vísar aftur til raunverulegs sambands einstaklings og samfélags. Ekki
er nóg með að einstaklingurinn sé mótaður af samfélaginu, að inntak hans
sé alltaf um leið samfélagslegt. Samfélagið, holdgerving einstaklinganna, er
jafnframt myndað af einstaklingum og lifir aðeins í krafti þeirra. Hafi hin
mikla heimspeki eitt sinn hugsað upp þann sannleika, sem nú er sannarlega
forsmáður af vísindalegri rökhyggju, að hugveran og hlutveran séu hreint
ekki óhagganlegir og einangraðir pólar, heldur sé aðeins hægt að ákvarða
þær með hliðsjón af ferlinu sem felst í að þær vinna á og valda breytingum
hvor á annarri, þá er ljóðlistin fagurfræðileg prófraun þessarar díalektísku
heimspekiyrðingar. Í ljóðinu afneitar hugveran, með samsemd sinni við
tungumálið, í senn hinni hreinu mónöðsku andstæðu sinni við samfélagið
og hreinni virkni sinni innan hins félagsmótaða þjóðfélags. En eftir því sem
yfirburðir þess gagnvart hugverunni aukast verða aðstæður ljóðlistarinnar
viðsjárverðari. Höfundarverk Baudelaires varð fyrst til að gera grein fyrir