Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 185
185
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
þeim á kerfisbundinn hátt í Kritik der Urteilskraft (Gagnrýni dómgreind-
arinnar).5 Með iðnbyltingunni og þeirri breyttu þjóðfélagsgerð sem henni
fylgdi tóku listamenn og menntamenn í auknum mæli að líta á listina sem
rými þar sem hugveran léki frjáls, slyppi undan oki þjóðfélagsins og gæti
endurheimt glataða einingu sína.6 Sú ímynd hins fagra sem tengist sjálf-
stæðu sviði listarinnar á þó vissulega sína skuggahlið, eins og Adorno fjallar
um í skrifum sínum, því að hún felur í sér að listin verður ekki aðeins rými
frjálsrar sköpunar heldur um leið vitnisburður um nauðungina sem ríkir í
þjóðfélaginu fyrir utan. Svo vitnað sé til orða Adornos, þá er listin „eitthvað
sem hefur flúið raunveruleikann en er engu að síður gegnsýrt af honum“,
hún er í senn „glaðvær“, að því leyti að hún er vettvangur frjáls leiks, og
þrungin alvöru, vegna þess að hún ber vott um þá samfélagslegu fjötra sem
hún lokar á.7 Frjáls hugveran sem birtist í listinni er ekki annað en draumsýn
þeirrar hugveru sem er fangin í þéttriðnu neti firringar og hlutgervingar og
er ofurseld lögmálum markaðarins. Innan hinnar borgaralegu þjóðfélags-
gerðar hefur hugveran sömu stöðu og hver annar varningur – hlutgervingin
felur í sér að einstaklingurinn verður eins og hver önnur eining í reikni-
líkönum markaðshyggjunnar og hægt er að skipta honum út fyrir annan. En
um leið býr listin yfir þjóðfélagslegu afli, að því leyti að hún er vettvangur
útópískrar sýnar – innan sjálfstæðs sviðs hennar er unnt að bregða upp
myndum af samfélagi sem grundvallast á öðrum lífsgildum en þjóðfélagið
fyrir utan. Eins og Adorno kemst að orði í Ästhetische Theorie: „Í sérhverju
ósviknu listaverki birtist eitthvað sem ekki er til“8 – og þannig megnar listin
ekki aðeins að bregða upp neikvæðri spegilmynd af þjóðfélaginu, heldur
felur hún um leið í sér fyrirheit eða „draum“ um „heim þar sem hlutirnir
væru öðruvísi“, eins og Adorno kemst að orði í greininni sem hér birtist.
Í erindi sínu um „ljóðlist og samfélag“ útfærir Adorno fagurfræðilegar
hugmyndir sínar innan ramma söguspekilegrar ljóðgreiningar, þar sem farið
er yfir vítt svið ljóðlistarsögunnar og horft til verka jafn ólíkra skálda og
5 Sjá Karl Philipp Moritz, Beiträge zur Ästhetik, ritstj. Hans Joachim Schrimpf og Hans
Adler, Mainz: Dieterich’sche Verlagsbuchhandlung, 1989; Immanuel Kant, Kritik der
Urteilskraft, ritstj. Wilhelm Weischedel, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1974.
6 Slíkar hugmyndir voru settar fram með einna skýrustum hætti í þekktu riti Friedrichs
Schiller, Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins, þýð. Arthúr Björgvin Bollason og Þröst-
ur Ásmundsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006.
7 Theodor W. Adorno, „Ist die Kunst heiter?“ Noten zur Literatur. Gesammelte Schriften,
11. bindi, ritstj. Rolf Tiedemann, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, bls. 599–606,
hér bls. 601.
8 Theodor W. Adorno, Ästhetische Theorie. Gesammelte Schriften, 7. bindi, bls. 127.