Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 168
168
HJALTI HUGASON
64. grein um rétt til að taka ekki þátt í trúariðkun.61 Túlkun trúfrelsisákvæð-
anna hér á landi hefur til þessa oftast gengið út frá hinni „jákvæðu hlið“.62
Hugmyndir sem nýlega hafa komið fram meðal annars á vegum mannrétt-
indaráðs Reykjavíkurborgar um reglur til viðmiðunar um samskipti leik-
og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa sýna breytingar í því efni og
þyngri áherslu á hina „neikvæðu hlið“ að minnsta kosti þegar um er að ræða
trúariðkun eða boðun í opinberu rými.
Útmörk trúfrelsis
Ekki er augljóst hvar útmörk trúarlegs tjáningarfrelsis liggja hvorki hér á
landi né annars staðar í Evrópu. Þó er nokkuð skýrt að hér er heimilt að
bera trúarleg tákn og klæðnað sem og að viðhafa ákveðið mataræði. Eins
og kunnugt er hafa deilur risið á síðari árum um þetta efni víða um lönd og
þeim jafnvel verið skotið til mannréttindadómstóla. Skýrar skilgreiningar
liggja ekki fyrir en Mannréttindadómstóll Evrópu gerir nokkuð ríkar kröfur
um að sýnt sé fram á bein málefnaleg tengsl milli trúarlegrar sannfæringar
og þeirrar breytni sem haldið er fram að leiði af henni.63
Formlega séð takmarkast trúfrelsi aðeins af því að ekki má „kenna eða
fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“. Þessa
takmörkun verður að túlka með hliðsjón af almennum hegningarlögum og
eftir atvikum öðrum lögum, (til dæmis dýraverndarlögum, hjúskaparlögum
eða barnaverndarlögum) en ekki almennu áliti stjórnvalda eða almennings.
Bannið við að kenna eitthvað sem er gagnstætt fyrrgreindum viðmiðunum
nær aðeins til þess sem er haldið að fólki í nafni ákveðins trúfélags og þess
krafist að því sé trúað og/eða eftir því farið sem eilífum sannindum. Ákvæðið
Att tämja gudarna. Om religion och demokrati, Stokkhólmi: Natur och kultur, 2010,
bls. 16, 49–50, 140–145. Hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndum og víðar
þróaðist lýðræði hins vegar á hægfara hátt sem ekki leiddi til byltingakennds uppgjörs
við stofnanir samfélagsins þar á meðal ríkis- og síðar þjóðkirkjuna. Meðal annars þess
vegna hefur hin „jákvæða hlið“ trúfrelsis verið í forgrunni hér.
61 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur, bls. 334, 336.
62 Sjá Oddný Mjöll Arnardóttir, „Trúfrelsi, sannfæringarfrelsi og jafnrétti í íslensku
stjórnarskránni“, bls. 368.
63 Ragnhildur Helgadóttir, „Hugsana-, samvisku- og trúfrelsi“, bls. 346–351. Björg
Thorarensen, Stjórnskipunarréttur, bls. 337. Sjá Oddný Mjöll Arnardóttir, „Trúfrelsi,
sannfæringarfrelsi og jafnrétti í íslensku stjórnarskránni“, bls. 374. Nýlega kvaðst
til dæmis innanríkisráðherra andvígur því að bannað verði að klæðast búrkum hér.
Fréttablaðið, 1. 2. 2011: http://vefblod.visir.is/index.php?s=4771&p=107227 [sótt 19.
7. 2011]. Sjá og Páll Sigurðsson, „Trúarbrögð og mannréttindi — Trúfrelsi og jafn-
ræði trúfélaga á Íslandi“, bls. 132–134.