Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 19
19
GEST BER AÐ GARÐI
„Hrafninn“ er í senn mjög tónrænt kvæði og bregður upp sterkri sviðsmynd,
kemur ekki á óvart að það örvi sköpun í öðrum listgreinum. Árið 2001 stóð
tónlistarmaðurinn Lou Reed til að mynda fyrir mikilli sviðsdagskrá, byggðri
á verkum Poes, m.a. „Hrafninum“, í Brooklyn Academy of Music. Nefnd-
ist hún POEtry og komu þar til liðs við Reed þekktir listamenn á borð við
Willem Dafoe, David Bowie og Laurie Anderson. Í framhaldi af þessu gaf
Reed út tvo hljómdiska undir heitinu Raven, með tónlist sem hann samdi
við ljóð Poes, auk þess sem leikarar lesa ljóð skáldsins.5 „Hrafninn“ hefur
einnig látið til sín taka í sjónlistum og það er athyglisvert að kvæðið virð-
ist leita á höfunda teiknimyndasagna ekki síður en sögur skáldsins í prósa-
formi. Frásögn kvæðisins hefur verið túlkuð í myndum, ýmist með eða án
kvæðatextanna.6 Fyrir tæpri hálfri öld (1963) gerði Roger Corman meira
að segja hryllings- og gamankvikmynd, The Raven, sem byggð er á kvæðinu
og prjónuð í kringum það (hún skartar leikurunum Vincent Price, Peter
Lorre, Boris Karloff og Jack Nicholson). Túlkun á „Hrafninum“ í tónum
eða myndum fellur undir það sem Roman Jakobson kallar þýðingu milli
táknkerfa („intersemiotic translation“).7 Ljóst er að myndrænar þýðingar
á „Hrafninum“ fela í flestum tilvikum í sér framlag til þeirrar hrollvekju-
arfleifðar Poes sem lögð hefur verið drjúg rækt við á liðnum aldarfjórð-
ungum.
„Hrafninn“ er meðal þeirra kvæða úr bókmenntahefðinni sem hafa ekki
aðeins verið þýdd á fjölda tungumála heldur jafnframt reynst nærtæk sem
baksvið og uppspretta hugmynda í listsköpun og dægurmenningu. Kvæðið
hefur meðal annars öðlast sérstakan enduróm í kvæðabálkinum „Hrafninn og
ég“, sem Karl Ágúst Úlfsson, leikari og rithöfundur, orti fyrir nokkrum árum
er landlæknisembættið leitaði til hans eftir efni um lýðheilsu. Kvæðabálk-
urinn er í þremur köflum og er hver þeirra sjö erindi. Þeir voru fluttir í
5 Sjá viðtal Árna Matthíassonar við Reed („Reed, Poe og hrafninn“) í Morgunblaðinu 8.
ágúst 2004.
6 Sjá t.d. Richard Corben, Edgar Allan Poe’s Haunt of Horror, New York: Marvel, 2006, og
Dawn Brown, Ravenous, Ontario: Speakeasy Comics, 2005. Sjá einnig myndræna túlkun
J.B. Bonivert á „The Raven“ (birtist með ljóðinu) í Rosebud Graphic Classics (sérhefti tengt
verkum E.A. Poe), 1. hefti, 2001, bls. 8–15, og myndasöguna „The Raven“ eftir Rich-
ard Corben og Richard Margopoulos í bók þeirra, Edgar Allan Poe, New York: Ballan-
tine Books, 2005, bls. 11–18. Greinarhöfundar þakka Úlfhildi Dagsdóttur fyrir hjálp við
útvegun sumra þessara myndasagna.
7 Roman Jakobson, „Um málvísindalegar hliðar þýðinga“, þýð. María Sæmundsdóttir,
Ritið, 3/2004, bls. 175–182. Sjá Ástráð Eysteinsson, Tvímæli. Þýðingar og bókmenntir,
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun / Háskólaútgáfan, 1996, bls. 27–28.