Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 32
32
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
Þriðja íslenska þýðingin á „Hrafninum“ er eftir skáldbóndann Sigur-
jón Friðjónsson og birtist í tímaritinu Lögréttu 1934 og síðar lítið breytt
í ljóðabók Sigurjóns, Heyrði ég í hamrinum II (1940). Fjórða þýðingin er
eftir Jochum M. Eggertsson, er notaði skáldanafnið Skuggi (hann var
bróðursonur Matthíasar Jochumssonar). Sú þýðing birtist handrituð í árs-
riti Skugga, Jólagjöfinni, árið 1941, en hann mun einnig hafa flutt hana í
Ríkisútvarpinu. Svona hljóðar fyrsta erindi Poes í útleggingum þeirra Sig-
urjóns og Skugga:26
Sigurjón:
Síð um mundir miðrar nætur,
myrkur flest er bugast lætur,
að fornum skræðum gaf ég gætur,
grúskaði‘ og fletti blaði á blað.
Þá var lostið högg á hurðu,
högg, er vakti geig og furðu;
hljóðlátt, kynlegt högg á hurðu,
í huga innst, er nam sér stað.
Kynlegt, dulrænt högg á hurðu,
hjarta mínu er settist að.
„Eflaust maður“ – eða hvað?
Sigurjón velur sér leiðarrímið „-að“ sem gefur honum marga rímmöguleika
(blað, stað, hvað, kvað, það, o.fl.), þótt ekki geti það talist hljómmikið og
má jafnvel kallast dauflegt í samanburði við „ore“-hljóð Poes. Á hinn bóg-
inn gengur Sigurjón skrefinu lengra en Matthías í innbyrðis rímtengslum
hvers erindis (og að segja má tveimur skrefum lengra en Poe almennt gerir),
því að hann rímar ekki aðeins ævinlega þrjár fyrstu línurnar saman, heldur
einnig þá níundu á móti línum fimm, sex og sjö. Fyrir vikið er endarím í
sérhverri línu hans og einungis þrjú rímhljóð í hverju erindi (a-a-a-b-c-c-
c-b-c-b-b). Það er því engin smáræðis rímþraut sem Sigurjón setur sjálfum
sér, og við bætist auðvitað reglubundin ljóðstafasetning. Þetta veldur því að
honum verður stundum óhægt um vik með merkingarlegt jafngildi. Skilaboð
hrafnsins („nevermore“) eru hjá Sigurjóni „aldrei framar“ og birtast oftast í
lokalínu erindis sem svo: „„Aldrei framar“, fuglinn kvað.“
26 Hér er stuðst við þá gerð Sigurjóns sem birtist í ljóðabók hans Heyrði ég í hamrinum II,
Akureyri: Prentverk Odds Björnssonar, 1940, bls. 58-66, hér bls. 58. Þýðing Skugga
er í Jólagjöfinni, V. árg. 1941, bls. 7-10, hér bls. 7.
Skuggi:
Í skuggaþéttri niðanóttu,
nepjuþungri; að mér sóttu
töfrafornar – tötramyndir
togaðar úr alda-djúpi. –
Loks byrjar mér í brjóst að renna,
en brátt upp hrekk; ég þóttist kenna
að drepið væri á dyr, á þenna
drjúga hátt, er þekkjum vér!
Með kynjahrolli hvísla hljóður:
„Hver er úti?!“ – En drottinn góður!
– Aðkomandi enginn er!