Skírnir - 01.01.1955, Blaðsíða 66
62
Jón R. Hjálmarsson
Skírnir
hafði hann mjög spillt áliti sínu hjá stéttarbræðrum sínum
í Danmörku með norsklundaðri stjórnmálastefnu. Með konu
sinni hafði hann hlotið miklar eignir í Noregi og hafði því
mikilla hagsmuna að gæta í landinu. Hann hafði til skamms
tíma fylgt erkibiskupi að málum í öllu, sem varðaði sjálf-
stæðismál landsins, og talið sig fremur Norðmann en Dana,
en er hér var komið, voru þó viðhorf hans allmjög breytt.
Sumarið 1528 kallaði konungur hann til Danmerkur á sinn
fund. Voru þar bornar á hann margvíslegar sakir og þungar.
Þyngstu ákærurnar voru fyrir afskipti hans af Dalajungker-
anum, fyrir það að setja Ólaf Galle höfuðsmann á Akurshúsi
þvert ofan í fyrirmæli konungs og auk þess fyrir margs
konar yfirgang við ýmsa aðalsmenn og danska fógeta i land-
inu. Vinsens átti mjög erfitt með að afsaka gerðir sínar og
hefði vissulega hlotið þyngri refsingu, ef hróðir hans, hátt-
settur í ríkisráði Dana, hefði ekki talað máli hans við konung.
Endalok urðu þau, að Vinsens varð að láta laust emhætti
sitt á Björgvinjarhúsi og þar að auki flest lén sín. En allt
um þetta gerði þó konungur vel við hann, áður en þeir skildu,
því að sama daginn, sem hann sagði Björgvinjarhúsi lausu,
fékk hann af konungi gjafabréf fyrir Nunnusetursklaustri í
Björgvin með öllum jarðeignum, sem voru mjög miklar. Taldi
konungur, að hann hefði ráðstöfunarrétt á klaustrinu, þar
sem það hefði verið stofnað af Noregskonungum fyrr á tím-
um. Auk þess fékk Vinsens nokkur ný lén, svo sem Finnmörk
og Sogn og fleiri. Þessum ráðstöfunum til að efla Vinsens var
vafalaust beint gegn katólsku kirkjunni og erkibiskupi.
Danski aðalsmaðurinn, Eske Bille, var gerður höfuðsmaður
á Björgvinjarhúsi og þá jafnframt landsstjóri vestanfjalls í
Noregi.
III.
I Niðarósi sat Ólafur erkibiskup og varð að horfa upp á,
að ákvarðanir hans og ríkisráðsins 1524 voru smám saman
að engu hafðar, en völd og áhrif Dana í Noregi sífellt aukin.
Hann hafði, þegar eftir að hann var orðinn erkibiskup,
hafið smíði vígis eins mikils í námunda við Niðarós. Var