Skírnir - 01.01.1955, Blaðsíða 79
Skímir
H. C. Andersen
75
heimspekinginn Sibbern, sem fer viturlegum orðum um Ander-
sen, en það er raunar nokkru síðar. En til veraldlegra fram-
kvæmda var drýgst hjálp Jonasar Collins, sem útvegar honum
styrk til skólavistar, síðan utanfararstyrk, og loks fær Ander-
sen skáldalaun; bækur hans taka að seljast, menn fara að
þýða þær, og frægð hans breiðist út. En menn lesi dagbækur
hans, og þær sýna, að síðar meir, eftir að hann er orðinn fræg-
ur, er hann ekki sæll nema rétt við og við. Hann talar um
vont skap, taugaslen, þreytu, lasleika, óró, hræðslu. Og eigi að
síður lætur hann í ljós ánægju sína og þakklæti í ævisögunni,
lukkustjarnan sveik hann ekki, þrátt fyrir allt stýrði góð for-
sjón öllu. Raunirnar voru í samræmi við vísdóm ævintýranna:
maður verður að þola svo hræðilega mikið, og svo verður mað-
ur frægur.
1 fyrstu dreymdi hann um að verða leikari eða söngvari, en
hann fékk fljótlega bréf upp á það frá stjórn Konunglega leik-
hússins, að hann gæti aldrei orðið það. Ástin á leikhúsinu þvarr
ekki, en hún virtist ætla að verða ógæfusamleg. En hann lét
rigna leikritum yfir það, og seint og síðar meir vann hann þar
lítils háttar sigra. Þó væri hann nú rækilega gleymdur, ef ekki
nyti hann annarra verka sinna. Ljóðskáld var hann, ekki stór-
brotið, en fáeinar ljúfar ljóðperlur eru til eftir hann. Hann
ferðaðist mikið og ritaði ágætar ferðabækur; þær eru skrifaðar
af miklu fjöri, litauðgi og lifandi eftirtektargáfu. Þá ritaði
hann allmikið af skáldsögum, og af þeim hlaut hann fyrst
frægð. Ekki leið á löngu, áður en menn fóru að þýða þær, eink-
um í Þýzkalandi, og sú viðurkenning, sem hann hlaut fyrir
þær, hélt honum í rauninni á floti andlega, meðan hann var
að fá vald yfir ævintýraforminu, þar sem hann fann að lykt-
um sjálfan sig og hóf göngu sína inn í heimsbókmenntirnar.
Fyrsta ævintýri Andersens, „Dodningen", kom út 1829,
fyrsta ævintýrahefti hans, „Eventyr fortalte for born“ 1835.
Síðan kom með litlu millibili eitt heftið af öðru. Árið 1845
breytir Andersen um nafn á ævintýrunum, nú heita þau að-
eins „Nye eventyr“ eða „Eventyr og historier“; hann sleppir
úr orðunum „fortalte for born“, vel vitandi, að með þeim orð-
um hafði hann markað ævintýrum sínum allt of þröngan bás.