Skírnir - 01.01.1955, Blaðsíða 85
Skírnir
Samræming framburðar
81
öðrum stofnunum, sem ætla má, að almenningur taki til fyrir-
myndar um málfar. Ranghverfa samræmingarinnar er hins
vegar sú, að reynt er að útrýma þeim framburðareinkennum,
sem ríkisvaldið er andvígt.
Björn heitinn Guðfinnsson prófessor vann ötullega að rann-
sóknum á íslenzkri hljóðfræði, sérstaklega á mismuni fram-
burðar í einstökum landshlutum og héruðum. Framlag dr.
Björns í þessum efnum er ómetanlegt, og verða allir, sem
kynna sér hljóðfræði nútímamáls, að leita til rita hans. Um
einn þátt þessara rannsókna fjallar doktorsritgerð hans Mál-
lýzkur I, sem er gagnmerkt rit. En dr. Birni auðnaðist því
miður ekki að vinna nema úr nokkrum hluta athugana sinna,
en hann lét eftir sig, er hann féll frá, merkilegt safn próf-
spjalda, sem geyma mikilvæga vitneskju um íslenzkan fram-
burð. Hefir samstarfsmanni dr. Björns við rannsóknirnar,
Ólafi M. Ólafssyni cand. mag., verið veittur styrkur til þess
að vinna úr þessum gögnum, og birtast niðurstöðurnar væntan-
lega, áður en mjög langur tími líður.
Dr. Björn Guðfinnsson var þannig gerður, að hann hafði
ekki aðeins vísindalegan áhuga á málinu. Hann felldi einnig
siðferðilegan dóm um málleg fyrirbæri. Honum nægði ekki
að rannsaka og komast að fræðilegri niðurstöðu. Hann vildi
einnig, að þess sæi einhvern stað í daglegu tali fólks, sem
hann taldi rétt í mállegum efnum. Hann vildi hafa áhrif á
það, hvert íslenzk málþróun stefndi. Hann var ekki aðeins
vísindamaður, heldur einnig kennari og kennimaður um mál-
leg efni. Af þessum kennimannlegu rótum er runnin bók
hans Breytingar á framburði og stafsetningu, sem út var gefin
í Reykjavík 1947. Meginstofn þessarar bókar er opinber há-
skólafyrirlestur, sem dr. Björn hélt 10. nóvember 1946.
Þessi bók er eitt aðgengilegasta heimildarrit, sem til er, um
útbreiðslu tiltekinna framburðaratriða, þó að það hafi ekki
verið neinn megintilgangur dr. Björns með henni að birta
fræðilegar niðurstöður. Það, sem um fram allt vakti fyrir
dr. Birni við samningu fyrirlestrarins og bókarinnar, var
6