Skírnir - 01.01.1955, Blaðsíða 197
Skímir
Ritfregnir
193
auðn og firnindi brúðkaupsklædd
í brumgrænan skóg;
hilling um aldir fjær
og innan handar þó.
Og bænir um frið eru viðlög margra þessara ljóða. Gæti það hugarfar
spáð góðu, að minnsta kosti um innanlands sambúð í frmtíðinni. Ætti
ég að segja, hvers mér þætti mest ávant, væri það karlmennska, gleði
og gamansemi, jafnvel ástríður.
Hér skal ekki fara í mannjöfnuð skáldanna. Mest kom Hannes Péturs-
son mé é óvart bæði vegna æsku sinnar og þess, að hann var mér áður
ókunnur. Annars hafa eðlilega elztu skáldin í þessum hóp yfirleitt náð
mestum þroska, ekki sízt þau, sem fædd eru fyrir 1920. Ljóðum flestra
þeirra var sá, er þetta ritar, handgenginn, og jók þetta kvæðasafn ekki við
vitneskjuna um góðkunna þresti i því lyngi, t. d. Kristján frá Djúpalæk.
Þó skal játað, að mér þykir nú Þorsteinn Valdimarsson athyglisverðara
og hugþekkara skáld en mig hafði áður órað fyrir — að sjálfsögðu vegna
þess, að ég hafði ekki lesið hann nógu rækilega niður í kjölinn. En gagn-
semi sýnisbókar sem þessarar er fyrst og fremst fólgin í því að draga
fram í dagsljósið það, sem skáldin gera sérkennilegast eða bezt. Og eftir
þvi, sem þau komast lengst, verður að meta þau, eins og iþróttamenn
hljóta viðurkenningu af afrekum þeim, sem þeir leysa mest af höndum.
Yngsta skáldið Þóra Elfa Björnsson, á fjögur kvæði í bókinni. Vekja
þau e. t. v. mesta furðu, þar eð hún er aðeins 15 ára, og verður því að
leggja allt annan mælikvarða á vinnubrögð hennar en þeirra, sem eldri eru.
Eitt kvæði Þóru, Formóðir. er á þessa leið:
Þú lást þarna og svafst
þar til hrynjandi lífsins vakti þig,
Og þú reist upp og sagðir:
Hvar er ég?
Það var eins og blærinn hefði hvíslað:
1 Eden —-
En þú skildir það ekki
heldur horfðir á sólaruppkomuna
og neglur þínar til skiptis.
Svo stóðstu upp
og lokkarnir hrundu niður bakið
ljósir og léttir
og hentust til — þegar þú hljópst áfram
mót nýrri veröld.
Sýnishorn þau, sem hér hafa verið birt, gefa nokkra hugmynd um fjöl-
breytni þessara ungu skálda, bæði að efni og formi. Ég sagði í upphafi
þessa greinarkorns, að yngri skáldin sæktu æ meira frá föstu formi. Sést
13